Skoðun

Sjávarút­vegur fram­tíðarinnar – friðun, vist­vænni veiðar og rétt­látara kvóta­kerfi

Arnar Helgi Lárusson skrifar

Umræða um sjávarútveg á Íslandi festist of oft í skotgröfum. Annað hvort er kerfið varið í heild sinni eða gagnrýnt af hörku, án þess að raunhæfar tillögur um úrbætur fái nægt rými. En ef við stöldrum aðeins við og spyrjum einfaldra spurninga blasir við að til eru leiðir sem gætu bæði styrkt fiskistofna, byggðir landsins og stöðu sjómanna sjálfra.

Fyrsta spurningin er þessi: Af hverju eru ekki allar togveiðar færðar út fyrir 12 sjómílur?

Grunnsævi landsins eru uppeldissvæði fjölda nytjastofna. Þar alast seiði upp og lífríkið er viðkvæmt. Með því að friða þessi svæði alfarið fyrir togveiðum fengju fiskistofnar raunverulegt svigrúm til að endurnýja sig. Slík friðun væri ekki árás á útgerð heldur fjárfesting í framtíðinni – trygging fyrir sjálfbærari veiðum til lengri tíma.

Önnur spurningin er: Væri ekki eðlilegt að umbuna vistvænum veiðarfærum?

Allar veiðar hafa áhrif, en áhrifin eru ekki þau sömu. Smábátar, línuveiðar og handfæraveiðar skilja eftir sig mun minna rask á botni og lífríki en þungar botnveiðar. Kerfið ætti að endurspegla það. Því minni sem áhrif veiða eru á lífríkið, þeim mun meiri ívilnanir ættu að fylgja – hvort sem það er í formi aukinna heimilda, lægri gjalda eða forgangs í úthlutunum.

Slík nálgun myndi hvetja til nýsköpunar, tæknibreytinga og ábyrgari nýtingar sameiginlegrar auðlindar.

Þriðja atriðið snýr að sjómönnunum sjálfum.

Eftir nokkur ár af markvissri friðun og uppbyggingu fiskistofna væri eðlilegt að endurskoða hvernig kvóta er úthlutað. Í stað þess að veiðiheimildir safnist áfram á færri hendur mætti færa stærri hluta þeirra beint til sjómanna sjálfra.

Úthlutun mætti byggja á starfsaldri á sjó, þannig að þeir sem hafa lagt líf sitt og heilsu í sölurnar í áratugi fengju hlutfallslega meira en þeir sem eru nýbyrjaðir. Með þessu yrði sjómaðurinn ekki lengur eingöngu launþegi heldur raunverulegur þátttakandi í útgerðinni. Eðlilegt væri að slíkar heimildir væru ekki framseljanlegar og giltu einungis á meðan sjómaðurinn hefði sjálfur starfsorku til að stunda sjómennsku.

Afleiðingarnar gætu verið jákvæðar fyrir samfélagið allt:

  • Minni líkur á að skip og kvóti flytjist milli landshluta
  • Sterkari sjávarbyggðir
  • Aukið réttlæti og jafnvægi í kerfinu

Að lokum má nefna strandveiðikerfið sem dæmi um hvar kerfið mætti þróa áfram.

Í dag eru veiðiheimildir í strandveiðum bundnar við bátinn en ekki við sjómennina sjálfa. Það skapar enga raunverulega hvata til að hafa fleiri en einn mann á trillu, þrátt fyrir að bátarnir séu almennt hannaðir og útbúnir með björgunarbúnaði fyrir fleiri menn. Afleiðingin er sú að einn maður er oft einn á sjó, með tilheyrandi álagi og öryggisáhættu.

Ef veiðiheimildir væru í ríkari mæli tengdar sjómönnum sjálfum, fremur en eingöngu bátnum, mætti bæði bæta öryggi og hagkvæmni. Með fleiri mönnum um borð væri hægt að skipta verkum, auka aflabrögð, stytta löndunartíma og draga úr líkamlegu álagi. Slíkt fyrirkomulag væri ekki aðeins mannlegra og öruggara, heldur einnig rekstrarlega skynsamlegra.

Sameiginleg auðlind – sameiginleg ábyrgð

Sjávarauðlindin er sameign þjóðarinnar. Það hlýtur því að vera eðlilegt markmið að nýta hana þannig að hún þjóni bæði náttúrunni, samfélaginu og þeim sem sækja hana til sjávar.

Með friðun viðkvæmra svæða, auknum hvötum fyrir vistvænar veiðar og réttlátari stöðu sjómanna sjálfra gætum við byggt upp sjávarútveg sem stenst tímans tönn – ekki aðeins í hagfræðilegum skilningi, heldur einnig í siðferðilegum.

Höfundur er einyrki.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×