Skoðun

Á bak við tært vatn sund­lauganna, ósýni­legt hlut­verk heil­brigðis­eftir­lits

Kolbrún Georgsdóttir skrifar

Íslensk sundlaugarmenning fékk nýlega formlega viðurkenningu UNESCO sem óáþreifanlegur menningararfur mannkyns. Merkilegt afrek sem á rætur sínar að rekja allt aftur til náttúrulauga landnámsmanna, nefndum í Íslendingasögum, til nútíma sundlauga vítt og breitt um landið. Þessi viðurkenning undirstrikar mikilvægi sundlauganna sem félagslegs vettvangs hreyfingar, heilsueflingar og samveru, en einnig sem lifandi hluta af íslenskri sjálfsmynd og velferð.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna gegnir þar lykilhlutverki, þar sem það sinnir eftirliti með sundlaugum og styður þannig við þessa menningu með því að tryggja að umgjörðin sé örugg og heilnæm fyrir alla.

Frá öryggi til afþreyingar

Sundkennsla hefur lengi verið skyldufag í íslenskum grunnskólum en hún á rætur sínar að rekja til öryggis fremur en tómstunda. Drukknanir voru algengar hér á landi þar sem lífsviðurværi og samgöngur tengdust sjó og vötnum en sundkunnátta var lítil og oft engin. Það var því talið lífsnauðsynlegt að kenna fólki að synda til að fækka slysum og styrkja sjálfsbjargargetu þjóðarinnar.

Þótt tilgangurinn hafi breyst með tímanum, er öryggi enn rauður þráður í íslenskri sundmenningu. Heilbrigðiseftirlitið sinnir reglubundnu eftirliti með sund- og baðstöðum, þar sem fylgst er með vatnsgæðum, aðbúnaði og öryggisatriðum. Markmiðið er að tryggja öruggt og heilnæmt umhverfi fyrir almenning.

Heilsuvernd og löggjöf

Réttur til heilsuverndar er einn af grundvallarmannréttindum og er hann tryggður í sáttmálum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Sameinuðu þjóðanna. Hluti af þeirri vernd felst í því að skapa fólki öruggt umhverfi í daglegu lífi, þar á meðal við afþreyingu eins og að fara í sund.

Íslensk löggjöf tekur þetta hlutverk alvarlega og mælir skýrt fyrir um hollustuhætti og öryggiskröfur á sund- og baðstöðum þar sem rekstraraðilum ber að tryggja að öll starfsemi uppfylli kröfur um gæði og öryggi. Þessi lagarammi myndar grunninn að skipulögðu heilbrigðiseftirliti sem hefur það meginhlutverk að vernda heilsu og öryggi gesta með reglulegu eftirliti, sýnatökum og fræðslu.

Á bak við ástsæla sundlaugarmenningu okkar liggur því öflugt eftirlit sem tryggir að vatnið í laugunum sé hreint, öruggt og heilnæmt. Þar gegnir heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga mikilvægu hlutverki, eins og áður segir, með því að fylgjast með vatnsgæðum, hreinlæti og öryggisþáttum í nánu samstarfi við rekstraraðila og starfsfólk. Þannig er menningin sem UNESCO heiðraði, ekki aðeins varðveitt heldur einnig heilsa og velferð allra þeirra sem njóta sundlauganna dag hvern.

Vatnsgæði og heilnæmi í íslenskum sundlaugum

Í nágrannaríkjum okkar, til dæmis í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Norðurlöndunum, hafa komið upp hópsýkingar í tengslum við sund og baðstaði, einkum af völdum sníkjudýra eins og Cryptosporidium, sem geta borist milli margra gesta á skömmum tíma. Slíkar hópsýkingar þekkjast ekki í íslenskum sundlaugum og má rekja það meðal annars til góðrar baðmenningar, faglegs heilbrigðiseftirlits og markvissrar fræðslu. 

Sótthreinsað vatn er forsenda þess að tryggja öryggi sundgesta, þar sem vatnið þarf að vera hreint, tært og laust við skaðlegar örverur eins og bakteríur (E. coli, Salmonella ofl.), veirur(nóróveiru ofl.) og sníkjudýr (Cryptosporidium ofl.). Óhreint vatn getur valdið sýkingum í húð, slímhúðum og meltingarvegi, en hér á landi er klór notað sem helsta sótthreinsiefnið til að uppræta slíkar ógnir.​  

Klórinn hvarfast einnig við lífræn efni frá sundlaugagestum, þ.e. svita, húðfitu, hár, þvag og snyrtiefni, við það myndast flókin efnasambönd sem kallast sótthreinsunaraukaafurðir (DBP), eins og tríklóramín sem gefur frá sér klórlykt. Þessi efni safnast upp í vatni og lofti (sérstaklega í innilaugum) og geta valdið ertingu í öndunarfærum hjá sundfólki og starfsmönnum.​ 

Tryggja þarf gæði vatnsins en þau ráðast af efnasamsetningu innrennslisvatns, óhreinindum frá gestum og umhverfi (t.d. fugladriti), hitastigi, gestafjölda og góðri baðmenningu. Síun fjarlægir föst óhreinindi, sótthreinsun eyðir örverum og endurnýjun vatns viðheldur jafnvægi. Gott innra eftirlit og rétt meðferð á vatni þar sem m.a. er gætt að sýrustig (pH 7,2–7,8), að gestir þvoi sér með sápu áður en farið er í laugina og skilvirk loftræsting í innilaugum,  draga verulega úr þessum óæskilegu aukaefnum.  

Baðmenning okkar stuðlar að hreinu sundlaugarvatni  

Það er mikilvægt að sundlaugagestir taki þátt í vatnshreinsunarkeðjunni með því að sápuþvo sér  áður en gengið er til laugar, takmarka notkun olíukenndra snyrtivara, klæðast hreinum sundfötum og síðast en ekki síst mæti frískir (ekki veikir eða með magapest) í laugina. Þetta eru einföld en áhrifamikil atriði sem draga úr lífrænni mengun baðvatns.  

Góð baðmenning er lykillinn að heilnæmu vatni, en í nútíma sundlaugum er það  heilbrigðiseftirlitið sem styður við góða sundlaugamenningu með reglubundnum mælingum, sýnatökum og fræðslu til að tryggja að sundlaugar uppfylli kröfur um öryggi og vatnsgæði. Með nánu samstarfi eftirlitsaðila, rekstraraðila og sundlaugargesta er hægt að draga úr myndun skaðlegra efna og tryggja að íslenskar sundlaugar séu bæði heilnæmar og öruggar fyrir alla. 

Því er mikilvægt að við öll sýnum baðvatni sundlauganna virðingu. Þannig varðveitum við bæði heilsu og menningu okkar í sundlaugum landsins. 

Höfundur er heilbrigðisfulltrúi í Reykjavík og formaður Félags heilbrigðisfulltrúa á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×