Erlent

Trump-liðar hóta fauta Maduros sömu ör­lögum eða dauða

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicolás Maduro og Diosdado Cabello í febrúar í fyrra.
Nicolás Maduro og Diosdado Cabello í febrúar í fyrra. EPA/RAYNER PENA R

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og embættismenn hans hafa talað fyrir því að stjórnvöld í Venesúela verði friðsamir vinir Bandaríkjanna. Einn maður þykir líklegastur til að geta komið í veg fyrir að það raungerist. Sá maður heitir Diosdado Cabello.

Hann er 62 ára gamall innanríkisráðherra Venesúela, náinn bandamaður Maduros til langs tíma og leiðir öryggissveitir ríkisins, auk annarra fylkinga manna sem eru hliðhollir ríkisstjórninni og hafa ítrekað gengið hart fram gegn andstæðingum stjórnvalda.

Sveitir þessar hafa lengi verið sakaðar um mannréttindabrot í nafni stjórnvalda Maduros og hafa fregnir borist af ofbeldisverkum þeirra í Caracas og víðar í Venesúela á undanförnum dögum.

Eftir að Maduro var numinn á brott af bandarískum hermönnum og Delcy Rodríguez, varaforseti, tók við embætti forseta, er Cabello enn innanríkisráðherra, þó hann og Rodriguez hafi eldað grátt silfur saman í gegnum árin.

Hann hefur einnig verið ákærður í Bandaríkjunum, eins og Maduro og eiginkona hans, fyrir meint fíkniefnasmygl og aðra glæpi.

Fréttaveitan Reuters hefur eftir heimildarmönnum sínum í Washington DC að verið sé að leita leiða til að gera Cabello samvinnuþýðan á sama tíma og unnið er að því að bola honum frá völdum og jafnvel í útlegð.

Bandaríkjamenn eru sagðir stefna að því að stjórna Venesúela óbeint um árabil, með því að stjórna getu ríkisins til að selja olíu.

Ráðamenn í Bandaríkjunum eru sagðir hafa gert Cabello ljóst að hann gæti einnig verið numinn á brott frá Venesúela eða orðið skotmark Bandaríkjamanna með öðrum hætti, standi hann í vegi þeirra.

Hrotti en ekki heimskur

Það að bana Cabello gæti þó valdið mikilli óreiðu í Venesúela. Eins og einn sérfræðingur í málefnum Venesúela sagði í samtali við blaðamann Washington Post, er Cabello hrotti en ekki heimskur.

„Hann veit að tilvist hans byggir á því að séu hagsmunir hans ekki tryggðir, geti hann brennt Venesúela til grunna.“

Geoff Ramsey, áðurnefndur sérfræðingur, sagði pólitíkina í Venesúela vera mjög blóðuga íþrótt.

Eitt það fyrsta sem Rodríguez gerði þegar hún tók við embætti var að skipa herforingjann Gustavo González López sem yfirmann heiðursvarðar Venesúela og gagnnjósnadeildar leyniþjónustu ríkisins. Hann er einn af mörgum háttsettum embættismönnum sem hafa verið beittir refsiaðgerðum af Evrópusambandinu og Bandaríkjunum fyrir mannréttindabrot og spillingu.

Samkvæmt Reuters er González López talinn náinn Cabello en þykir óljóst hvort að með skipun hans í embætti vilji Rodríguez fá hann yfir til sín eða stilla til friðar milli hennar fylkingar og fylkingar Cabello.

Delcy Rodriguez, nýr forseti Venesúela, eftir að hún tók við völdum á dögunum. Á hennar hægri hönd er Diosdado Cabello, innanríkisráðherra, en við hliðina honum er Vladimir Padrino, varnarmálaráðherra. Báðir eru gífurlega valdamiklir í Venesúela og gætu reynst Rodriguez erfiðir í framtíðinni.EPA/Forsetaembætti Venesúela

Tók þátt í misheppnaðir valdaránstilraun

Eins og áður segir er Cabello 62 ára gamall. Hann kynntist og vingaðist við Hugo Chavez, fyrrverandi forseta Venesúela, í herskóla á þeirra yngri árum og varð hann einn af tryggustu undirmönnum hans. Þegar Chavez reyndi en mistókst að taka völd 1992, stýrði Cabello einni skriðdrekadeild sósíalista í árás á forsetahöll ríkisins.

Cabello sat í fangelsi um tíma en eftir að Chavez komst til valda árið 1999 tóku Cabello og fjölskyldumeðlimir hans ýmsar áhrifamiklar stöður innan stjórnvalda ríkisins.

Cabello sat í embætti varaforseta í ríkisstjórn Chavez og hjálpaði honum að verjast valdaráni árið 2002. Seinna meir varð hann innanríkisráðherra og tengdist öryggisveitum og leyniþjónustum Venesúela nánum böndum.

Þegar Chavez greindist með krabbamein var Cabello álitinn næst valdamesti maður ríkisins.

Chavez valdi þó Maduro sem arftaka sinn en þá voru hann og Cabello andstæðingar. Maduro þurfti þó seinna meir aðstoð Cabello við að halda völdum í Venesúela.

Fyrstu aðgerðir Cabello eftir að Maduro var numinn á brott benda til þess að hann vilji halda friðinn við Rodríguez og tók hann þátt í innsetningarathöfn nýja forsetans, ásamt fulltrúum margra annarra fylkinga innan sósíalistahreyfingarinnar í Venesúela.

Seinna sama kvöld mundaði ráðherrann þó riffil fyrir framan öryggissveitir sínar og hvatti þá áfram, áður en hann sendi þá á götur Caracas til að stöðva öll mótmæli gegn ríkisstjórninni og koma í veg fyrir möguleg fagnaðarlæti vegna brotthvarfs Maduros.

„Efasemdir eru landráð,“ sagði hann samkvæmt frétt Wall Street Journal.

„Farið nú út og berjist um sigur á götunum.“

Öryggissveitum í Venesúela hefur verið skipað að elta upp og handsama fólk sem talið er hliðhollt Bandaríkjunum. Íbúar hafa sagt frá því að vegatálmar og eftirlitsstöðvar hafi verið reistar í Caracas þar sem meðlimir öryggissveita skoða síma fólks og leita að skilaboðum sem þykja fara gegn yfirvöldum.

Trump hefur þó gefið til kynna að hann hafi fengið ráðamenn í Venesúela til að draga aðeins úr undirokun í garð almennings og hélt því fram í vikunni að hann hefði fengið þá til að loka „pyntingarklefum“ í miðborg Caracas.

Diosdado Cabello hefur lengi stýrt óformlegum öryggissveitum ráðanadi afla í Venesúela sem hafa lengi verið sakaðar um ýmis ódæði gegn óbreyttum borgurum.EPA/MIGUEL GUTIERREZ

Áhrifamikill varnarmálaráðherra

Annar áhrifamikill maður sem gæti reynst Rodríguez erfiður er Vladimir Padrino, varnarmálaráðherra. Hann stýrir herafla Venesúela en samkvæmt frétt Washington Post eru bæði hann og Cabello mun valdameiri en formlegir titlar þeirra gefa til kynna.

Saman stjórna þeir öryggissveitum landsins, bæði formlegum og óformlegum, og stórum hluta viðskiptalífs landsins eins og námuvinnslu og höfnum. Eins og Cabello er Padrino einnig eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir meint fíkniefnasmygl.

Cabello og Padrino eru einnig sagðir hafa spilað stóra rullu í því að halda Maduro í embætti forseta Venesúela á erfiðum tímum gegnum árin. Sérstaklega árið 2019, þegar Juan Guiadó ógnaði veru Maduro í embætti og kringum mjög umdeildar kosningar árið 2024. Kosningar sem Maduro tapaði líklega en ríkisstjórn hans hélt þó áfram völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×