Íslenski boltinn

Júlíus sagður á förum frá KR til Noregs

Sindri Sverrisson skrifar
Júlíus Mar Júlíusson virðist vera á förum frá KR eftir eins árs dvöl.
Júlíus Mar Júlíusson virðist vera á förum frá KR eftir eins árs dvöl. vísir / jón gautur

Útlit er fyrir að KR muni selja miðvörðinn Júlíus Mar Júlíusson til norska knattspyrnufélagsins Kristiansund og að hann verði þar með annar íslenski leikmaðurinn sem fer til félagsins úr Bestu deildinni í vetur.

Frá þessu greinir Fótbolti.net í dag og hefur heimildir fyrir því að KR hafi fengið tilboð frá Kristiansund í Júlíus.

Áhugi hefur verið á Júlíusi frá Norðurlöndum en hann er samningsbundinn KR út árið 2028. Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur sá áhugi þó ekki endað með tilboði nema í tilfelli Kristiansund og standa viðræður yfir.

Þessi 21 árs gamli miðvörður kom til KR síðasta vetur frá uppeldisfélagi sínu Fjölni og mun þá hafa kostað 7,5 milljónir. Talað hefur verið um að KR vilji tvöfalda þá upphæð fyrir Júlíus nú.

Júlíus lék 16 leiki í Bestu deildinni í fyrra og á einnig að baki 3 leiki fyrir U21-landslið Íslands. Hann var á varamannabekknum í síðustu þremur leikjum KR á síðustu leiktíð, þegar liðið bjargaði sér naumlega frá falli niður í Lengjudeildina.

Áður hafði Kristiansund tryggt sér krafta Hrannars Snæs Magnússonar sem félagið fékk frá Aftureldingu eftir að Mosfellingar féllu úr Bestu deildinni í haust.

Kristiansund hafnaði í 13. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, með 34 stig úr 30 leikjum, og var þremur stigum frá því að þurfa að fara í fallumspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×