Lífið

Stein­hissa á því að fyrsta barnið sé fyrsta barn ársins

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Elena og Guðmundur með þann litla sem dreif sig í heiminn á nýju ári.
Elena og Guðmundur með þann litla sem dreif sig í heiminn á nýju ári.

Foreldrar fyrsta barnsins sem fæddist á þessu ári áttu ekki von á drengnum í heiminn fyrr en viku síðar. Það kom því vel á óvart þegar drengurinn fæddist undir flugeldaregni skömmu eftir miðnætti á nýársnótt en um er að ræða fyrsta barn þeirra beggja.

„Það var allt í flugeldum og sprengjum fyrir utan, allir auðvitað að fagna krakkanum,“ segir nýbakaði pabbinn Guðmundur Vignir Jack eðli málsins samkvæmt léttur í bragði í samtali við Vísi. Frumburður þeirra Elenu Pshennikova var fyrsta barnið sem fæddist árið 2026 á Íslandi, kom í heiminn klukkan 00:24 líkt og Vísir hefur greint frá. Að sögn Guðmundar gekk allt eins og í sögu, móður og barni heilsast vel.

„Þetta var náttúrulega alls ekkert planið, settur dagur var ekki fyrr en 6. janúar,“ segir Guðmundur hlæjandi sem bætir því við að þau Elena hafi heldur alls ekki átt von á því að taka við símtölum og fyrirspurnum fjölmiðla í kjölfar fæðingarinnar. Þau séu enn að kynnast þeim litla.

„Og við erum ekki búin að ákveða neitt nafn. Við vildum ekki ákveða það fyrr en við sæjum strákinn og förum nú að pæla í því fljótlega,“ segir Guðmundur um litlu stjörnuna.

Sá litli hefur enn ekki verið nefndur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.