Körfubolti

Barnastjarna á Álftanesið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Miskovic á að hjálpa Álftanesi að komast aftur á beinu brautina.
Nikola Miskovic á að hjálpa Álftanesi að komast aftur á beinu brautina. álftanes

Álftanes hefur samið við Serbann Nikola Miskovic sem þótti mikið efni á sínum tíma.

Hinn 2,08 metra hái Miskovic er sonur körfuboltamannsins Dejans Miskovic. Hann vakti snemma mikla athygli fyrir hæfileika sína og var valinn besti leikmaður Evrópumóts U-18 ára 2017 þar sem Serbar stóðu uppi sem sigurvegarar.

Miskovic hóf ferilinn með Mega Basket í heimalandinu en lék einnig með Beovuk 72 í Serbíu áður en hann fór til Póllands og lék með Arka Gdynia.

Hinn 26 ára Miskovic hefur sömuleiðis leikið í Svartfjallalandi, Grikklandi, Spáni og síðast í Norður-Makedóníu. Á síðasta tímabili var hann með tæplega sautján stig og átta fráköst að meðaltali í leik með Pelister í Norður-Makedóníu.

Álftanes er í 8. sæti Bónus deildarinnar með átta stig. Liðið hefur tapað síðustu fimm deildarleikjum sínum. 

Eftir tapið fyrir Tindastóli hætti Kjartan Atli Kjartansson sem þjálfari liðsins. Aðstoðarmaður hans, Hjalti Þór Vilhjálmsson, stýrði Álftanesi í næstu tveimur leikjum og á dögunum var greint frá því að hann hefði verið ráðinn aðalþjálfari liðsins.

Fyrsti leikur Álftaness á nýju ári er gegn nýliðum Ármanns í Laugardalshöllinni á laugardaginn. Þar gæti Miskovic þreytt frumraun sína með Álftnesingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×