Lífið

Frægir fjölguðu sér árið 2025

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hilmir Snær, Vala Kristín, Snorri Másson, Nadine Guðrún, Erna Mist, Þorleifur Örn, Lára Clausen og Rikki G voru meðal þeirra sem fjölguðu sér á árinu.
Hilmir Snær, Vala Kristín, Snorri Másson, Nadine Guðrún, Erna Mist, Þorleifur Örn, Lára Clausen og Rikki G voru meðal þeirra sem fjölguðu sér á árinu.

Hvað veitir okkur meiri gleði en nýtt líf? Fátt, ef eitthvað. Blessuð börnin eru það besta sem við vitum og það er alltaf gaman að lesa fréttir af barnaláni og nýjum Íslendingum.

Hér að neðan má sjá yfirferð yfir nokkur kríli sem komu í heiminn á árinu og Vísir greindi frá.

Ef Instagram-færslurnar birtast á ekki þá er ráð að endurhlaða (e. refresh) síðunni.


Janúar

Listahjón byrjuðu árið vel

Greint var frá því í byrjun síðasta árs að myndlistarkonan Erna Mist Yamagata og leikstjórinn Þorleifur Örn Arnarsson væru nýtt par. Tuttugu ára aldursmunur þeirra vakti þá athygli, Þorleifur er fæddur 1978 og Erna árið 1998.

Fjallað var svo um tilvonandi barneign þeirra sumarið 2024 og í nóvember sama ár keypti parið sér íbúð í Vesturbæ Reykjavíkur. Um ári eftir að fjallað var fyrst um parið fæddist þeim svo dóttir.

„Bjóðum þessa fögru dömu velkomna í heiminn,“ skrifaði Þorleifur við Instagram-færslu þar sem parið greindi frá fæðingur stúlkunnar.


Íslensk athafnakona og breskur hermaður

Athafnakonan Tanja Ýr Ástþórsdóttir og breski hermaðurinn Ryan Amor eignuðust sitt fyrsta barn 23. janúar síðastliðin og voru afar lukkuleg með drenginn sem var síðan skírður Ezra Antony Amor.

Tanja Ýr var kjörin Ungfrú Ísland árið 2015 og var einn fyrsti áhrifavaldurinn til að hasla sér völl á Íslandi. Hún flutti síðan til Lundúna með hárlengingafyrirtæki sitt Glamista og kynntist þar Ryan í byrjun árs 2022.

„Hann er í hernum úti og þegar að við kynnumst er hann í þriggja vikna fríi. Þannig að við vorum alltaf saman í þrjár vikur, fórum á ýmis stefnumót, í tívolígarð og alls konar,“ sagði Tanja Ýr í viðtali við Dóru Júlíu í Einkalífinu í október 2023, um fyrstu kynni hennar og Ryan.

„Ég sé þennan hávaxna strák. Ég er bara „Oh my god hvað hann er sætur,“ en ég vissi samt ekki hvernig ég átti að nálgast hann. Þannig að ég kem upp á honum á bar, þar sem enginn var að dansa, og ég spyr hann hvort hann vilji dansa. Og ég man að hann horfði geðveikt skringilega á mig en þá var það af því hann skildi ekkert hvað ég var að segja. Enskan mín er mjög hræðileg. Þannig að ég þurfti að segja þetta nokkrum sinnum þangað til að hann loksins skildi hvað ég var að segja, sneri mér í nokkra hringi og eftir það vorum við saman,“ sagði Tanja.


Febrúar

„Nú snýst lífið um mjólkurþamb og karrýgular hægðir“

Ragnhildur Þrastardóttir, fréttastjóri Heimildarinnar, og unnusti hennar Sigurður Páll Guttormsson, sérfræðingur í vörnum gegn peningaþvætti, eignuðust sitt fyrsta barn í febrúar.

Sjá einnig: Fréttastjóri Heimildarinnar orðin móðir

„„Þetta er ekki nýburi, þetta er fermingardrengur!” sagði læknirinn áður en hann klippti á tunguhaft drengsins okkar Spalla sem kom í heiminn 12 dögum á eftir áætlun um síðustu helgi, 17 merkur og með stóra Egilsstaðahöfuðið á herðum sér. Nú snýst lífið um mjólkurþamb og karrýgular hægðir og það er bara frekar fínt,“ skrifaði Ragnhildur í sameiginlegri færslu parsins um drenginn sem fékk síðan nafnið Henrý Guttormur í maí.

Ragnhildur er með meistaragráðu í blaðamennsku frá Columbia-háskóla, vann um árabil hjá Morgunblaðinu en færði sig yfir til Heimildarinnar árið 2023. Hún tók við sem fréttastjóri í september 2024 en hætti rúmu ári síðar þegar hún var ráðin sem ritstjóri Kveiks á Rúv.


Mars

Fjölgaði í teboðinu 

Hlaðvarpsstjórnandinn Birta Líf Ólafsdóttir og fasteignasalinn Gunnar Patrik Sigurðsson eignuðust dóttur í mars. 

„09.03.25. Litla hjartað okkar er komin,“ skrifaði parið við mynd af nýjasta meðlimi fjölskyldunnar.

Um var að ræða aðra dóttur þeirra en fyrir áttu þau Emblu Líf Gunnarsdóttir sem fæddist í apríl 2021. Yngri dóttirin var síðan skírð Elísabet Eva um sumarið.


Hlaupagarpur og förðunarfræðingur foreldrar í annað sinn

Hlaupagarpurinn Arnar Pétursson og förðunarfræðingurinn Sara Björk Þorsteinsdóttir eignuðust sitt annað barn 10. mars síðastliðinn. Var það drengur, sem fékk síðan nafnið Þorsteinn Hrafn, en fyrir áttu þau stúlkuna Sölku sem fæddist í mars árið 2022.

Sjá einnig: „Loksins kominn til okkar“

Arnar er einn þekktasti og sennilega umdeildasti hlaupari landsins. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í hlaupum og hefur jafnframt þjálfað fjölda hlaupara. Sara Björk er menntaður ljósmyndari og hefur starfað sem förðunarfræðingur um árabil.


Nýr Dagur

Hjónin Fannar Sveinsson, leikstjóri og sjónvarpsmaður, og eiginkona hans Valgerður Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur urðu þriggja barna foreldrar í mars.

Sjá einnig: Hraðfréttaprins fæddur og nefndur

„Þetta er Dagur Fannarsson - allt gekk vel og öllum líður vel,“ skrifar Fannar við fallega myndafærslu af systkinunum. Fyrir eiga hjónin Eystein sem er sjö ára og Katrínu sem er fimm ára.


Vísitölufjölskylda hjá Unni og Travis

Fjölskylda Unnar Eggertsdóttr, leikkonu og hugmynda- og textasmiðs, og gítarleikarans Travis Raab varð að vísitölufjölskyldu í apríl þegar þau eignuðust aðra dóttur sína. 

Sjá einnig: Unnur Eggerts og Travis eiga von á öðru barni

Fyr­ir áttu þau þriggja ára dótturina Emmu Sólrúnu og sú yngri fékk nafnið Sara Lóa.


Apríl

Leikarabarn í heiminn

Leikararnir Vala Kristín Eiríksdóttir og Hilmir Snær Guðnason eignuðust sitt fyrsta barn saman í júní. Fyrir átti Hilmir tvær stúlkur úr fyrri samböndum en þriðja dóttirin fékk nafnið Oddný Lóa Völudóttir.

Fréttir bárust fyrst af því að Vala Kristín og Hilmir Snær væru að stinga saman nefjum í júní 2023 en þá hafði ítrekað sést til þeirra um bæinn mánuðina á undan. Nokkur aldursmunur er á parinu, eða 22 ár, en Vala er fædd árið 1991 og Hilmir árið 1969. 

Hilmir Snær leikur um þessar mundir í Hamlet í Borgarleikhúsinu en Vala Kristín var síðast í sýningunni Þetta er Laddi áður en hún fór í fæðingarorlof.


Enn einn drengurinn

Hjónin Nadine Guðrún Yaghi, hlaðvarpsstjórnandi og fyrrverandi forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs flugfélagsins Play, og Snorri Másson, þingmaður og varaformaður Miðflokksins, eignuðust soninn Jón 27. apríl síðastliðinn.

Fyrir áttu þau Mása litla, sem fæddist í júní 2023, en auk þess átti Nadine soninn Tedda úr fyrra sambandi.

„Í augum okkar er hann engum líkur, nema að vísu ef til vill bræðrum sínum, sem eru reyndar misáhugasamir um Nonna litla á þessari stundu,“ sagði Nadine um Nonna litla þegar þau greindu frá fréttunum.

Snorri og Nadine kynntust á fréttagólfinu hjá Stöð 2 þegar þau störfuðu þar bæði sem fréttamenn. Þau gengu í það heilaga sumarið 2024 á Siglufirði.


Krílið Kolbrún Kría

Sólveig Sigurðardóttir, sem var ein fremsta Crossfit-kona Íslands um tíma, og kærasti hennar Halldór Karlsson fatahönnuður, eignuðust dótturina Kolbrúnu Kríu 21. apríl síðastliðinn, átta vikum fyrir tímann. 

Halldór og Sólveig byrjuðu saman árið 2023 og hefur lífið leikið svona við þau. 

Sólveig keppti um lengi vel CrossFit, lenti í 34. sæti í einstaklingskeppni á Heimsleikunum í CrossFit árið 2022. Eftir tíu ára feril í greininni ákvað hún hins vegar að leggja skóna á hilluna í mars í fyrra. 

Halldór er útskrifaður fatahönnuður frá LHÍ, starfar sem þjálfari í Mjölni og heldur úti hlaðvarpinu Sterakastið ásamt tvíburabróður sínum Benedikti Karlssyni og Böðvari Tandra Reynis­syni.


Maí

Lára og lyfjaprinsinn

Áhrifavaldurinn Lára Clausen og kærasti hennar Jens Hilmar Wessman, arftaki Wessman-veldisins, eignuðust stúlkuna Valdísi Ýr Wessman á verkalýðsdagin.

Sjá einnig: Lára og lyfjaprinsinn eignuðust stúlku

„Þann 1. maí mætti fullkomna stelpan okkar í heiminn níu dögum fyrir settan dag. Við erum í skýjunum með fallegu stelpuna okkar,“ skrifaði Lára í Instagram-færslu þar sem hún greindi frá fréttunum.

Lára hefur um nokkurra ára skeið verið einn þekktasti áhrifavaldur landsins en Jens Hilmar er elsti sonur Róberts Wessman, forstjóra lyfjafyrirtækisins Alvotech og eins ríkasta manns landsins.


Leikkona og handboltadómari

Kristín Pétursdóttir, leikkona, flugfreyja og áhrifavaldur, og kærasti hennar, Þorvar Bjarmi Harðarson handboltadómari, eignuðust dreng 5. maí síðastliðinn.

Sjá einnig: Kristín Péturs orðin tveggja drengja móðir

Drengurinn, sem fékk nafnið Tindur, er þeirra fyrsta barn saman en fyrir átti Kristín sex ára soninn Storm.

„05.05.25 kom engillinn okkar í heiminn,“ skrifaði parið í Instagram-færslu þar sem þau greindu frá fréttunum.


Júní

Kom í heiminn á Þjóðhátíðardaginn

Orri Steinn Óskarsson, knattspyrnumaður hjá Real Sociedad og landsliðsmaður íslenska karlalandsliðsins, og kærastan hans Sylvía Rós Sigurðardóttir eignuðust stúlku á sjálfan 17. júní.

Stúlkan er þeirra fyrsta barn saman en nýbökuðu foreldrarnir eru bæði á sínu tuttugasta og fyrsta aldursári.

Orri Steinn er af Nesinu, ól manninn hjá Gróttu og fór síðan í atvinnumennsku til FC Kaupmannahafnar. Sumarið 2024 gekk hann síðan til liðs við spænska félagið Real Sociedad og varð þá dýrasti leikmaður sem Kaupmannahafnarliðið hefur selt frá upphafi.


Þingkonusonur kom í heiminn

Sonur Rögnu Sigurðardóttur, læknis og þingmanns Samfylkingar, og Árna Steins Viggósonar fæddist þann 23. júní og mældist 47 sentímetrar og 11 merkur.

„Móður og barni heilsast vel og er hann augasteinn okkar allra. Eftir 37 vikna meðgöngu og 23 mínútur mætti drengurinn í heiminn með hvelli en Ragna missti vatnið á baðherberginu heima hjá okkur kl 21 og 3 klst og 23 mín síðar var þessi ungi herramaður mættur í heiminn,“ sagði í samfélagsmiðlafærslu parsins.

Drengurinn var síðan skírður Sigurður Árni við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni í ágúst í höfuðið á móðurafanum og móðurbróður Árna Steins sem hét Árni Sævar Gylfason og féll frá árið 2022.


Sólbjörn bættist í költið

Katrín Oddsdóttir lögmaður og Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir tónlistar- og útvarpskona, eignuðust son í júní og gáfu honum nafnið Sólbjörn við fallega athöfn í heimahúsi í ágúst.

Sólbjörn litli kom í heminn þann 14. júní og er fyrsta barn þeirra saman en fyrir átti Katrín tvo drengi.

Parið tilkynnti að von væri á stækkun í fjölskyldunni í janúar síðastliðnum og sögðu að hlýjar minningar frá sumrinu 2024 yljuðu í janúarstorminum: „Er þá ekki upplagt að opinbera fréttirnar um að það fjölgar í litla költinu okkar í byrjun júní.“


Sannkallaður Framsóknarprins

Sigurður Ingi Jóhannsson fékk alnafna þegar áttunda barnabarn hans var skírt í ágústlok. Drengurinn er grænn í báðar ættir því móðir hans, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, er fyrrverandi þingmaður Framsóknar meðan faðirinn, Jóhann H. Sigurðsson, var skrifstofustjóri flokksins.

Sjá einnig: Neistaflug í Framsóknarflokknum

Skírnin fór fram í hinni glæsilegu friðlýstu Hrepphólakirkja, eftir húsameistarann Rögnvald Ólafsson, í Hrunamannahreppi. Sigurður Ingi fæddist 27. júní síðastliðinn og var því rétt rúmlega tveggja mánaða á skírnardaginn.

Hafdís Hrönn og Jóhann tóku að stinga saman nefjum á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í Vík í Mýrdal í nóvember 2023 og hófu í kjölfarið samband. Hafdís átti fyrir tvær dætur úr fyrra sambandi en Jóhann eina stúlku.


Júlí

Illa við óskilvirka matarþjónustu

Hersir Aron Ólafsson, forstöðumaður hjá Símanum og fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, og Rósa Kristinsdóttir, sérfræðingur í framtaksfjárfestingum hjá Vex, eignuðust dreng í júnílok, þeirra fyrsta barn saman.

„Þessi kútur skellti sér í heiminn mánudaginn 30. júní. Hann er alveg fullkominn, hraustur og með frábært hár. Hann elskar mjólk og kúr en er illa við skiptiborð og óskilvirka matarþjónustu. Við hlökkum til að fylgja honum í gegnum lífið,“ skrifaði Rósa við færslu á samfélagsmiðlum þar sem þau tilkynntu fregnirnar.


Sumardama Arons Kristins og Láru Portal

Aron Kristinn Jónasson, söngvari og athafnamaður, og Lára Portal viðskiptafræðingur eignuðust sitt fyrsta barn 26. júní, dótturin Veru Aronsdóttur Portal.

„Hún er mætt og hún er fullkomin! 🐝“ skrifaði Aron við skemmtilega myndasyrpu á Instagram.

„Litla sumardaman okkar kom í heiminn 26. júní - við erum svo sannarlega í skýjunum,“ sagði hann jafnframt.

Aron og Lára byrjuðu saman þegar þau voru bæði í Verzlunarskóla Íslands árið 2014. Aron gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Clubdub frá 2018 en hætti í henni í júní. Hann hefur síðan þá gefið út dálítið af tónlist undir eigin nafni og stofnaði einnig fatafyrirtækið Takktakk með æskuvini sínum, Bergþóri Mássyni. Lára Portal Starfar hjá KPMG sem sérfræðingur í sjálfbærni. 


Ekki Borgar Búi heldur Þorsteinn Halldór

Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og fyrrverandi borgarstjóri, og Milla Ósk Magnúsdóttir, yfirframleiðandi hjá ACT4, eignuðust son í júlílok og fögnuðu fimm ára brúðkaupsafmæli nokkrum dögum síðar.

„Drengurinn er undurfagur eins og mamma sín og báðum heilsast vel. Systurnar og stóri bróðir eru afar skotin í honum og keppast um að fá að knúsa hann. Ég er svo innlega þakklátur fyrir lífið og fyrir að eiga þessa fallegu og heilbrigðu fjölskyldu,“ skrifaði Einar í færslu þar sem hann tilkynnti fregnirnar. 

Sjá einnig: Einar og Milla eignuðust dreng

Drengurinn fékk nafnið Þorsteinn Halldór en fyrir áttu þau soninn Emil Magnús sem fæddist 3. apríl 2021 og svo átti Einar tvær dætur úr fyrra hjónabandi. Þau trúlofuðu sig í sameiginlegri útskriftar- og afmælisveislu árið 2019 og giftu sig með eins dags fyrirvara árið 2020.


Ágúst

Afkastamikil Idol-stjarna

Tónlistarkonan og Idol-stjarnan Saga Matthildur Árnadóttir og Sigurður Rúnar Reynisson kærasti hennar eignuðust stúlku 14. ágúst síðastliðinn. Fyrir átti parið einn dreng sem fæddist í maí 2023.

„Búið að vera nóg að gera seinustu níu mánuði,“ skrifaði Saga í Instagram-færslu og birti mynd af litlu stúlkunni.

Saga söng sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar þegar hún bar sigur úr býtum í Idol árið 2023. Hún komst að því að hún væri barnshafandi þegar millistig keppninnar fór fram í Salnum í Kópavogi árinu áður og þurfti að læra að beita annarri tækni þegar lengra leið á meðgönguna.


September

Samstíga eldri bróðurnum

Ultramaraþonhlauparinn Elísabet Margeirsdóttir og útivistarkappinn Páll Ólafsson eignuðust annan son sinn þann 9. september síðastliðinn. 

Fyrir áttu þau hinn fjögurra ára Margeir Inga en bræðurnir voru býsna samstíga í sínum fyrstu skrefum. Báðir komu í heiminn tveimur vikum fyrir settan dag, á þriðjudegi, níunda dag mánaðarins, og fæddust jafnstórir.

„Yndislegur lítill bróðir kom í heiminn með hraði þann 9. september. Margeir Ingi, 4 ára, er duglegur stóri bróðir sem hugsar vel um nýja krílið og erum við ótrúlega stolt af honum. Bræðurnir eru ótrúlega líkir en þeir fæddust báðir tæplega tveimur vikum fyrir settan dag og voru nákvæmlega jafn stórir. Mættu einnig báðir á þriðjudegi og 9. degi mánaðar,“ skrifuðu þau í samfélagsmiðlafærslu.


Allt er þegar þrennt er

Fanney Ingvarsdóttir, stafrænn markarðssérfræðingur og fyrrverandi fegurðardrottning, og Teitur Páll Reynisson, viðskiptastjóri hjá Landsbankanum, eignuðust sitt þriðja barn 28. september síðastliðinn.

Fyrir áttu þau átta ára Kolbrúnu Önnu og fjögurra ára Reyni Alex.

„Elsku litla draumadísin okkar kom í heiminn seinni partinn í gær á sólríkum sunnudegi, 28.09.25. 🤍 Lítil vog eins og mamma sín. Stóru systkinin eru óendanlega stolt af litlu systur og mamma og pabbi þakklátust í heimi fyrir þríeykið sitt. Lífið,“ skrifuðu þau í færslu.


Balísk-íslenskur sonur músíkanta

Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds og söngkonan Sandrayati eignuðust sitt fyrsta barn, drenginn Mána Surya Arnalds Fay, þann 29. september síðastliðinn.

Sjá einnig: Sonur tónlistarparsins fæddur og nefndur

„Við erum öll heilbrigð og hraust, þreytt og undrandi, algjörlega breytt, að jafna okkur og ótrúlega þakklát. Svo margt að segja en það hefur verið dásamlegt að vera aftengdur og njóta hvers augnabliks með þessari litlu mannveru sem vex og dafnar dag frá degi. Hann hefur þegar kennt okkur ótal margt,“ skrifa þau við færsluna.


Október

„Mættust og loðnust“

Karen Björg Eyfjörð Þorsteinsdóttir handritshöfundur og uppistandari, og unnusti hennar, Hjalti Jón Guðmundsson, eru urðu tvggja barna foreldrar í október.

„Mættust og loðnust,“ skrifaði Karen og birti mynd af litlu stúlkunni í hringrásinni á Instgram. Fyrir eiga þau Guðmund Eyfjörð sem fæddist í október 2021.

Karen og Hjalti kynntust í Menntaskólanum á Akureyri þaðan sem þau eru bæði ættuð. Þau byrjuðu saman rétt fyrir útskrift, fluttu suður þar sem þau keyptu sína fyrstu íbúð í miðbænum og hafa verið saman í tólf ár.


„Risastór drengur“ mætti í heiminn

Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson og Sylvía Rós Arnarsdóttir, fyrrverandi flugfreyja Play, eignuðust dreng 11. október síðastliðinn. Um er að ræða þeirra fyrsta barn saman en Viðar á einn dreng úr fyrra sambandi.

Sjá einnig: Eignuðust „risastóran“ dreng

„Laugardaginn 11. október klukkan 10:19 mætti þessi risastóri drengur í heiminn. 5,150 kg og 59 sentimetrar. Móður og barni heilsast vel, föður heilsast líka mjög vel. Ótrúlega stoltur af minni fyrir þetta afrek,“ skrifa þau við færsluna.


Dóttir dóttur

Katrín Tanja Davíðsdóttir, afrekskona og tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit, og fyrrverandi íshokkíleikmaðurinn Brooks Laich eignuðust sitt fyrsta barn 6. október síðastliðinni, dótturina Emberly Hebu Laich.

„Hjörtu okkar eru barmafull af ást eftir að við buðum dóttur okkar velkomna í heiminn,“ skrifaði Katrín Tanja í Instagram-færslu þar sem hún greindi frá fregnunum.

https://www.visir.is/g/20252789980d/dottir-katrinar-tonju-komin-i-heimin?card=small

Katrín Tanja og Laich hafa verið í sambandi síðan 2021 og trúlofaði sig í desember á síðasta ári. Í maí greindu þau svo frá því að þau ættu von á barni.

Katrín Tanja varð tvívegis heimsmeistari í CrossFit en í desember síðastliðnum tilkynnti hún að hún væri hætt að keppa.


Nóvember

„Annað eins hár hefur sjaldan sést“

Fjölmiðlamaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason, jafnan þekktur sem Rikki G, og þroskaþjálfinn Valdís Unnarsdóttir, eignuðust stúlku 18. nóvember.

Stúlkan er þeirra annað barn en fyrir eiga þau Svandísi Birtu sem er fædd árið 2014.

„Þetta yndislega kraftaverk kom í heiminn 07:20 í morgun. Móður og barni heilast afar vel og faðirinn ekkert nema meyr, stoltur og þakklátur. Daman aftur á móti gæti þurft klippingu áður en kemur að fyrsta baðinu, annað eins hár hefur sjaldan sést,“ skrifaði Rikki við samfélagsmiðlafærslu þar sem hann deildi fregnunum.


Handboltasérfræðingurinn og endurskoðandinn Theodór Ingi Pálmason, betur þekktur sem Teddi Ponza, og unnusta hans, Anna Guðný Sigurðardóttir, viðskiptastjóri hjá Sýn, eignuðust stúlku 20. nóvember síðastliðinn. 

Stúlkan er annað barn Theodórs og Önnu saman en Theodór á auk þess eina stúlku úr fyrra sambandi. Stúlkan ákvað að flýta sér í heiminn og fæddist á bílastæðinu fyrir utan heimili þeirra í Kópavogi. Theodór rak atburðarás fæðingarinnar í skemmtilegri færslu.

„Anna byrjaði að finna fyrir verkjum á fimmtudagsmorgun og missti svo vatnið rétt um 8. Þá fór ég með Einar Inga á leikskólann og var kominn til baka um korteri seinna. Þegar ég kom heim var planið að fara beint upp á spítala en þegar Anna er að labba niður stigann heima biður hún mig um að hringja á sjúkrabíl þar sem hún fann að barnið væri að koma! Aðilinn sem ég ræddi við hjá neyðarlínunni sem sagði okkur að halda kyrru fyrir, að sjúkrabíll væri á leiðinni og einungis nokkrar mínútur í hann,“ skrifar Theodór í færslunni.

Theodór segir litlu stúlkuna ekki hafa beðið eftir sjúkrabílnum, sem leiddi til þess að hann brá sér í hlutverk ljósmóður og tók á móti dóttur sinni á bílaplaninu fyrir utan heimili þeirra, í aðeins tveimur gráðum, klukkan 08:40.

„Það hentaði þá ansi vel að hafa gripið allt á línunni í den! Við tók löng tveggja mínútna bið eftir sjúkrabílnum sem liðu eins og heil eilífð. Þeir brunuðu með okkur upp á spítala þar sem tekið var vel á móti okkur. Sú litla var ansi köld eftir þessar fyrstu köldu mínútur í þessum heimi en var fljót að ná upp hita,“ skrifaði Theodór.

„Anna var algjör nagli og yfirveguð í gegnum þetta allt saman og ég nefndi við ljósmæðurnar á spítalanum að þær gætu alltaf heyrt í mér ef það vantar á vakt.“


Tengdar fréttir

Frægir fjölguðu sér árið 2024

Það er alltaf mikið gleðiefni þegar nýtt líf kemur í heiminn og má segja að árið 2024 hafi verið mikið barnaláns ár hjá þjóðþekktum Íslendingum. Hér að neðan má sjá yfirferð yfir nokkur kríli sem komu í heiminn á árinu og Vísir greindi frá.

Frægir fjölguðu sér árið 2023

Það er ávallt mikið gleðiefni þegar börn koma í heiminn. Hér að neðan má sjá yfirferð yfir nokkur kríli þjóðþekktra landsmanna sem komu í heiminn á árinu 2023 og Vísir greindi frá.

Frægir fjölguðu sér árið 2022

Það er ávallt mikið gleðiefni þegar börn koma í heiminn. Lífið hefur greint reglulega frá því þegar þekktir einstaklingar eignast börn. Hér að neðan má sjá yfirferð yfir nokkur kríli sem komu í heiminn á árinu 2022 og Vísir greindi frá.

Frægir fjölguðu sér árið 2021

Það er ávallt mikið gleðiefni þegar börn koma í heiminn. Lífið hefur greint reglulega frá því þegar þekktir einstaklingar eignast börn. Hér að neðan má sjá yfirferð yfir nokkur kríli sem komu í heiminn á árinu 2021 og Vísir greindi frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.