Skoðun

Ríkis­stjórnin ræðst gegn launa­fólki og at­vinnu­lausum

Finnbjörn A. Hermannson skrifar

Hver er sýn ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur til þess velferðarsamfélags sem tekist hefur að byggja upp á Íslandi? Ég minnist þess ekki að slíkri grundvallarspurningu hafi nokkru sinni verið beint til okkar ágæta forsætisráðherra og framganga ríkisstjórnar hennar gefur ekki til kynna að fólkið sem þar hefur komið sér fyrir í valdastólum hafi hugleitt það gífurlega starf sem fyrri kynslóðir lögðu á sig í því skyni að leiða samfélag okkar úr sárri fátækt á velferðarbraut. Jafnframt hafa, því miður, vaknað efasemdir um að ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hafi til að bera nægilega sögulega yfirsýn að ekki sé talað um virðingu fyrir eðlilegum samskiptum og samráði er þeir véla um hagsmuni fólksins í landinu.

Í niðurskurðarfjárlögum núverandi ríkisstjórnar er svonefndum „aðhaldsaðgerðum“ beint að íslensku launafólki og sérstaklega þeim hópum sem neðst standa í tekjustiganum. Hér eru dæmi um áherslur niðurskurðarstefnunnar sem snerta beint kjör og réttindi launafólks:

  • Bótatímabil atvinnuleysistrygginga verður stytt um 12 mánuði og reglur um ávinnslu þrengdar.
  • Fjárhæðir í barnabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur við barnafjölskyldur rýrnar að raungildi.
  • Fjárhæðir í húsnæðis- og vaxtabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur vegna húsaleigu og vaxtakostnaðar rýrnar að raungildi.
  • Sérstökum aðhaldsráðstöfunum upp á 3,8 milljarða króna verður hrundið í framkvæmd í heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþáttaka sjúklinga verður aukin.
  • Framlög til framhaldsfræðslu og íslenskukennslu verða lækkuð.

Þarna opinberast forgangsröðun ríkisstjórnarinnar því allt eru þetta pólitískar ákvarðanir. Ekki þarf mikla þekkingu á samfélagi okkar til að greina að niðurskurðinum er fyrst og fremst ætlað að koma af mestum þunga niður á lágtekjufólki, leigjendum og innflytjendum.

Svona gerir maður ekki

Atvinnuleysistryggingar eru hluti af réttindum sem launafólk ávinnur sér með þátttöku á vinnumarkaði og eru einn af hornsteinum afkomuverndar almennings. Að baki atvinnuleysistryggingum býr merkileg saga átaka og verkfalla sem verkalýðshreyfingin þurfti að efna til í því skyni að knýja fram þessar samfélagslegu umbætur sem fela í sér aðstoð við fólk í sérlega erfiðum og krefjandi aðstæðum.

Nú hefur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur einhliða ákveðið að stytta rétt til atvinnuleysisbóta um heilt ár og þrengja ávinnslurétt tryggingarinnar. Þetta er ákveðið þrátt fyrir að allt frá miðri síðustu öld hafi legið fyrir að ekki yrðu gerðar breytingar á þessum grunnréttindum launafólks án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Jafnframt hefur öllum viðkomandi verið ljóst að atvinnuleysistryggingakerfið verður ekki aðskilið frá þeim sveigjanlega vinnumarkaði sem mótast hefur hér á landi.

Ráðmenn segja að niðurskurðurinn eigi að skila sex milljarða króna „hagræðingu“ hjá ríkissjóði á ári þegar þessi skerðing á réttindum launafólks hefur verið að fullu innleidd. Forsendur þess útreiknings sýnast hæpnar, að minnsta kosti afar óljósar.

„Svona gerir maður ekki“ var eitt sinn sagt við íslenskan ráðherra sem misst hafði allt jarðsamband í gleði yfir eigin mikilfengleika og kunngjört vanhugsaða og gerræðislega ákvörðun. Einhver pólitískur þungavigtarmaður þyrfti nú að eiga orðastað við hæstvirtan félagsmálaráðherra.

Viljinn til valda

Ég bið lesendur að taka eftir því að Alþýðusamband Íslands er og hefur lengi verið tilbúið eiga viðræður um umbætur á atvinnuleysistryggingakerfinu. Ég minni á að 2021 skipaði þáverandi félagsmálaráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að endurskoða lög um atvinnuleysisbætur. Fulltrúar launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda tóku þátt í þeirri vinnu. Lengd bótatímabilsins var m.a. til umræðu þar.

Núverandi félagsmálaráðherra gefur ekki kost á frekara starfi á þeim vettvangi. Þess í stað kýs ráðherrann að splundra þríhliða samstafi aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda með einhliða ákvörðun um réttindaskerðingu atvinnuleitenda.

Reynslan hræðir

Nú má spyrja: hvers vegna telur verkalýðshreyfingin á Íslandi ótækt að stytta rétt til atvinnuleysisbóta úr 30 mánuðum í 18? Fyrsti liður svarsins felst einmitt í vinnubrögðum félagsmálaráðherra. Þótt þau séu að sönnu fordæmalaus í vanstillingu sinni hafa fyrri ríkisstjórnir löngum horft til niðurskurðar á þessum vettvangi. Almenningur í landinu getur ekki átt allt sitt undir velvilja stjórnvalda hverju sinni – um slík réttindi hefur verið samið og samningar skulu standa.

Íslenskt efnahags- og atvinnulíf er óstöðugt og sveiflukennt langt umfram það sem þekkist í „löndunum sem við viljum bera okkur saman við“ eins og stjórnmálamennirnir segja þegar þeim svo hentar. Af þeim sökum er þörf á svo löngu bótatímabili. Þá er sá sveigjanlegi vinnumarkaður sem hér á landi tíðkast felur í sér að girðingar vegna uppsagna eru lágar og lægri en almennt tíðkast í fyrrnefndum nágrannaríkjum. Þetta er aðlögun að aðstæðum og hefur um margt þótt gagnast vel.

Við þetta er svo því að bæta að stjórnvöld hafa árum saman sýnt atvinnulausum lítinn áhuga og birtist það m.a. í að hér er mun minni fjármunum veitt í vinnumarkaðsaðgerðir í þágu þeirra en í áðurnefndum fyrirmyndarríkjum. Þetta áhersluatriði annarra Norðurlanda skapar forsendur fyrir styttri bótatímabilum þar á bæjum. Það á ekki við hér á landi og ekki að sjá áform um breytingu þar á.

Einhliða ákvörðun ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um skerðingu atvinnuleysistrygginga er aðför að launafólki á Íslandi, réttindum þess og kjörum. Verkalýðshreyfingin getur hvorki sætt sig við form né inntak þeirrar ákvörðunar.

Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×