Skoðun

Krónan býr sig ekki til sjálf

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fullyrðingar um að vaxtastigið hér á landi sé vegna krónunnar standast enga skoðun. Þetta hafa fjölmargir hagfræðingar og sérfræðingar í fjármálum bent á og fært gild rök fyrir á liðnum árum. Þeir sem ákveðið hafa að krónan sé vandamálið taka vitanlega engum slíkum rökum en hafa að sama skapi ekki getað hrakið þau. Þeirra aðferð hefur einfaldlega verið sú að fullyrða að krónan væri sökudólgurinn án haldbærra raka og fjalla síðan um það hversu hörmuleg hún sé fyrir vikið.

Meðal þessara hagfræðinga er dr. Ólafur Margeirsson. Til að mynda ritaði hann grein á Kjarnann um árið þar sem hann sýndi fram á það að hvorki vextir né verðbólga hér á landi væru afleiðingar krónunnar sem slíkrar. Sama ætti við um verðtrygginguna Ólafur benti á það að fullyrðingar um að háir vextir væru afleiðing þess að krónan væri lítill gjaldmiðill gengju ekki upp. Þá ætti það sama að eiga um önnur lítil hagkerfi með eigin mynt. Fylgnin þar á milli væri hins vegar afskaplega veik.

Meg­in­vanda­málið væri lang­tíma­vext­ir. Þar eins og annars staðar skipti stofnanaum­gjörðin sem sköpuð hefði verið í kringum gjaldmiðilinn mestu máli. Dæmi um áhrif hennar á lang­tíma­vexti væri upp­bygg­ing líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins. Lífeyrissjóðunum væri lagalega skylt að tryggja 3,5% ávöxtun á það fé sem þeim væri treyst fyrir. Þar á meðal og ekki sízt í gegnum lánveitingar. Þegar svo stór aðili á markaði hefði slíkar lagalegar skyldur hefði það vitanlega mjög mikil áhrif á allan markaðinn.

Fullyrðingar um að verðbólga væri afleiðing krónunnar væru sem fyrr segir sama marki brenndar að sögn Ólafs. Þar væri því gjarnan haldið fram að verðbólgan væri afleiðing þess að krónan hefði glatað mest öllu upprunalegu verðgildi sínu. „Nú tel ég mig sæmilega að mér kom­inn, þótt ég segi sjálfur frá, þegar kemur að kenningum um orsakir verð­bólgu. Ég hef hins vegar aldrei séð alþjóð­lega viðurkennda kenn­ingu þess efnis að gjald­miðl­inum sjálfum sé kennt um eigin virðisrýrnun.“

„Tökum aug­ljós­asta dæm­ið: pen­inga­magn í umferð. Við getum öll verið sam­mála um að krón­an, sem gjald­mið­ill, ræður engu um það hversu mikið er búið til af henni. Það eru bankar sem búa til ca. 95% af krón­um, þ.e. pen­ing­um, í umferð á Íslandi. Og frá 1886, sem er ártalið sem tölur Hag­stof­unnar ná aftur til, til árs­loka 2013 jókst pen­inga­magn í umferð ríf­lega 211.000.000-falt. Þrátt fyrir að hag­kerfið hafi stækkað tölu­vert síðan þá er sú stækkun hverf­andi í sam­an­burði við þessa tölu.“

Hvað verðtrygginguna varðaði væri hún hluti stofnanaumgjarðar hagkerfisins. „Líkt og svo margir aðrir stofn­ana­legir þættir var verð­trygg­ing sett á lagg­irnar sem svar við þáver­andi vanda­máli: verð­bólgu. Við höfum þegar séð að verð­bólga hefur ekkert með gjald­mið­il­inn að gera og því er frá­leitt að halda því fram að gjaldmiðillinn hafi eitt­hvað með verð­trygg­ingu að gera: ef A (krón­an) leiðir ekki af sér B (verðbólgu) en B leiðir af sér C (verð­trygg­ing) leiðir A ekki af sér C,“ segir áfram.

Þótt mörgum þætti þægi­legt að gera krónuna að blóra­böggli væri ekki hægt að kenna henni um heima­tilbúin vanda­mál. „Háir vext­ir, verð­bólga, við­skipta­halli og geng­is­sveiflur hafa ekk­ert með krón­una að gera heldur stofn­ana­legt umhverfi hagkerf­is­ins. Krónan er sak­laus bak­ari í hag­kerfi sem smið­ur­inn - Íslend­ingar - hefur búið til stofn­ana­lega umgjörð um sem hefur ákveðnar efna­hags­legar afleiðing­ar. Og sem endranær er lausnin ekki að hengja bak­ar­ann þegar smið­ur­inn er sek­ur.“

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)




Skoðun

Sjá meira


×