Bíó og sjónvarp

Nextar og Sinclair sýna þætti Kimmels aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Jimmy Kimmel.
Jimmy Kimmel. AP/Randy Holmes og Disney

Forsvarsmenn fyrirtækjanna Nexstar Media Group og Sinclair Broadcast Group lýstu því yfir í gær að þættir Jimmys Kimmel yrðu sýndir aftur á sjónvarpsstöðvum fyrirtækjanna. Er það í kjölfar þess að þættirnir voru teknir úr birtingu, eftir að þessir sömu menn neituðu að birta þá í kjölfar hótana yfirmanns Fjarskiptastofnunnar Bandaríkjanna (FCC) um að stöðvar sem sýndu þættina ættu á hættu að missa útsendingarleyfi.

Var það eftir að Kimmel sagði í þætti sínum að „MAGA-gengið“ legði mikið púður í það að sannfæra heiminn um að morðingi Charlies Kirk væri ekki einn af þeim og reyna að nýta sér dauða mannsins í pólitískum tilgangi. Þá gagnrýndi hann viðbrögð ríkisstjórnarinnar við morðinu á Kirk.

Donald Trump, forseti, hafði áður ítrekað kallað eftir því að Kimmel yrði rekinn. Eftir að þættir Kimmels voru settir í pásu sagði Trump að það að gagnrýna hann á sjónvarpsstöðvum sem eru háðar útsendingarleyfi ríkisins ætti að vera ólöglegt.

Þættir Kimmels fóru aftur í framleiðslu í vikunni og voru sýndir af ABC, sem framleiðir þætti Kimmels, en ekki á stöðvum Sinclair og Nexstar. Þau fyrirtæki eiga stóran hluta héraðssjónvarpsstöðva í Bandaríkjunum.

Í heildina er um að ræða 66 sjónvarpsstöðvar víðsvegar um Bandaríkin, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Sjá einnig: Kimmel snéri aftur, Trump til mikillar óánægju

Forsvarsmenn Sinclair tilkynntu fyrst að þeir hefðu ákveðið að setja þættina aftur í birtingu eftir „viðbrögð frá áhorfendum, auglýsendum og samfélagsleiðtogum sem stæðu fyrir margvísleg sjónarmið“.

Hollywood Reporter segir að í tilkynningu Sinclair hafi einnig sagt að fyrirtækið hafi lagt til breytingar við forsvarsmenn ABC sem hægt yrði að framkvæma til að styrkja samband ABC og systurstöðva. Stjórnendur Sinclair hafa lengi þótt hliðhollir Trump.

Í kjölfarið sendu forsvarsmenn Nexstar út sambærilega yfirlýsingu og sögðust hafa átt í viðræðum við stjórnendur Disney, móðurfélags ABC, og að þeir hefðu verið sáttir við tillögur þeirra og ummæli.

Forsvarsmenn Nexstar vinna að umfangsmiklum samruna við fjölmiðlafyrirtækið Tegna fyrir 6,2 milljarða dala. Sá samruni er háður samþykki frá FCC og Brendan Carr, yfirmanni stofnunarinnar.

Stjórnendur beggja fyrirtækja sögðu að ákvörðunin um að setja þætti Kimmels aftur í sýningu hefði ekki komið til vegna þrýstings frá ríkisstjórn Trumps eða einhverjum öðrum.

AP fréttaveitan hefur eftir sérfræðingi í bandarískum fjölmiðlum að sambandið við Disney og samningar Nexstar og Sinclair við fjölmiðlarisan sé þeim of mikilvægt. Forsvarsmenn Disney hefðu getað gert samninga við önnur fyrirtæki á næsta ári um dreifingu efnis í Bandaríkjunum og slíkt hefði getað komið verulega niður á Nexstar og Sinclair.


Tengdar fréttir

Jimmy Kimmel snýr aftur á skjáinn

Grínistinn og þáttastjórnandinn Jimmy Kimmel mun snúa aftur á skjáinn með spjallþátt sinn Jimmy Kimmel Live! á morgun. Hlé var gert á framleiðslu þáttanna í síðustu viku eftir að ummæli Kimmels um viðbrögð hægri manna við morðinu á Charlie Kirk ollu usla.

Cruz sagði hótanir Carr líkt og frá mafíósa í Goodfellas

Öldungadeildaþingmaðurinn Ted Cruz, Repúblikani frá Texas, líkti hótunum Brendan Carr, forstjóra Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna (FCC), um að afturkalla útvarpsleyfi ABC-stöðva vegna ummæla spjallþáttastjórnandans Jimmy Kimmel, við taktík skipulagðra glæpaforingja, mafíósa, í kvikmyndinni Goodfellas frá árinu 1990.

Lofuðu Trump í Norður-Kóreustíl

Stjórnendur spjallþátta vestanhafs voru nokkuð þungir á brún vegna þess að þáttur Jimmys Kimmel var tekinn úr loftinu í vikunni en gerðu þrátt fyrir það stólpagrín að vendingunum og Donald Trump, forseta, þar sem þeir lofuðu hann í hástert, með mikilli kaldhæðni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.