Erlent

Til í við­ræður en mun aldrei láta kjarnorkuvopnin af hendi

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. AP/KCNA

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, segist opinn fyrir nýjum viðræðum við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Með þeim skilyrðum að Bandaríkjamenn hætti að krefjast þess að Kim láti kjarnorkuvopn sín af hendi. Það segist hann aldrei ætla að gera.

Einræðisherrann telur, samkvæmt sérfræðingum, að kjarnorkuvopnin tryggi að ekki sé hægt að velta honum úr sessi og að þau tryggi áframhaldandi yfirráð fjölskyldu hans yfir Norður-Kóreu um árabil.

„Heimurinn veit nú þegar fullvel hvað Bandaríkin gera eftir að þau þvinga önnur ríki til að gefa upp kjarnorkuvopn sín og afvopnast,“ sagði Kim samkvæmt AP fréttaveitunni.

„Við munu aldrei leggja niður kjarnorkuvopn okkar. Það verða engar viðræður, hvorki núna né í framtíðinni, um að gefa eitthvað eftir gagnvart óvinveittum löndum í skiptum yfir niðurfellingu viðskiptaþvingana.“

Þetta er meðal þess sem Kim sagði í ávarpi á þingi Norður-Kóreu í gær. Þar sagðist hann einnig aldrei ætla að hefja aftur viðræður við yfirvöld í Suður-Kóreu en hann sleit á mestöll samskipti ríkjanna árið 2019, eftir seinni fund hans og Trumps.

Í ávarpi sínu talaði Kim einnig um góðar minningar sínar af fundum með Trump og að í raun stæði ekkert í vegi frekari funda, nema krafa Bandaríkjamanna varðandi kjarnorkuvopnin, samkvæmt Yonhap fréttaveitunni frá Suður-Kóreu.

Aukin spenna á Kóreuskaga

Trump og Kim funduðu síðast í Víetnam árið 2019. Fundurinn var mun styttri en til stóð og lauk honum um tveimur tímum á undan áætlun. Aldrei hefur komið almennilega í ljós af hverju fundinum lauk svo snemma, að öðru leyti en að það hafi verið vegna deila um hvaða skilyrði Norður-Kórea þyrfti að fallast á fyrir niðurfellingu refsiaðgerða.

Ríkið hefur verið beitt umfangsmiklum aðgerðum vegna kjarnorkuvopnaþróunar þess að tilrauna með langdrægar eldflaugar sem eiga að geta borið kjarnorkuvopn.

Tiltölulega fljótt eftir fundinn hóf Kim aftur tilraunir með kjarnorkuvopn. Eftir fundinn rifti hann líka flestum samskiptum við Suður-Kóreu.

Sjá einnig: „Selir“ skutu óvopnaða borgara í leyniaðgerð í Norður-Kóreu

Spenna hefur aukist nokkuð á Kóreuskaganum á undanförnum árum, samkvæmt AP fréttaveitunni. Kim hefur staðið í töluverðri hernaðaruppbyggingu og auknu samstarfi við yfirvöld í Rússlandi. Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa áhyggjur af því að aðgengi að rússneskri tækni geti gert Kim auðveldara að nútímavæða herafla sinn.

Sjá einnig: Skotflaugar frá Norður-Kóreu orðnar nákvæmari

Í ræðu sinni sagði Kim að hann myndi aldrei ræða sameiningu við yfirvöld Í Suður-Kóreu. Sameining væri „óþörf“. Ný ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur reynt að bæta samskipti ríkjanna en með litlum sem engum árangri.

Þá hótaði hann að beita kjarnorkuvopnum sínum gegn Suður-Kóreu ef til stríðs kæmi á Kóreuskaga. Vísaði Kim einnig til nýrra leynivopna sem hann hefði öðlast, án þess þó að fara út í hver þau gætu verið.


Tengdar fréttir

Pútín og Xi ræddu ódauðleika í gegnum líffæragjöf

Hljóðnemi sem kveikt var á tók upp stutt samtal Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og Xi Jinping forseta Kína þar sem þeir ræddu um það að líffæragjöf gæti einn daginn veitt ódauðleika á stærðarinnar hersýningunni sem fór fram í Peking í dag.

Sendir frá Norður-Kóreu í „þrældóm“ í Rússlandi

Þúsundir Norður-Kóreumanna hafa verið sendir til Rússlands, þar sem þeir segja komið fram við þá eins og þræla. Þar eru þeir látnir vinna við húsasmíðar og í verksmiðjum, svo eitthvað sé nefnt, og eru þeir látnir vinna gífurlega langa daga og nánast án frídaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×