Erlent

Her­þotur sendar á loft vegna rúss­neskrar eftirlitsflugvélar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tvær þotur voru sendar á loft frá Rostock-Laage herstöðinni þegar rússnesk eftirlitsvél svaraði ekki köllum.
Tvær þotur voru sendar á loft frá Rostock-Laage herstöðinni þegar rússnesk eftirlitsvél svaraði ekki köllum. Getty/Marcus Brandt

Tvær þýskar herþotur voru sendar á loft í gær þegar rússnesk eftirlitsvél af gerðinni Ilyushin II-20M flaug yfir Eystrasalt og hunsaði beiðnir um að gera grein fyrir sér.

Spenna hefur aukist á síðustu dögum vegna dróna og flugvéla Rússa í lofthelgi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Stjórnvöld í Eistlandi hafa óskað eftir fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna þessa, í fyrsta sinn frá því að Eistar gerðust aðilar að SÞ fyrir 34 árum.

Margus Tsahkna, utanríkisráðherra Eistlands, segir framgöngu Rússa þátt í stigmögnun síðarnefndu. Brot þeirra á lofthelgi Eistlands og Póllands kallaði á samræmt svar alþjóðasamfélagsins. Radek Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, sagði í síðustu viku að stjórnvöld í Rússlandi væru með þessum ögrunum að prófa viðbragð og samtakamátt Nató.

Donald Trump Bandaríkjaforseti svaraði því játandi í gær þegar hann var spurður að því hvort hann myndi verja Evrópuríkin fyrir frekari ágangi af hálfu Rússa. Þá sagði forsetinn að honum hugnaðist ekki framganga Rússa í lofthelgi Póllands og Eistlands en að hann hefði ekki fengið ítarlegar upplýsingar um málið.

Bloomberg hefur eftir heimildarmönnum í Rússlandi að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir fund sinn með Trump í ágúst síðastliðnum að Bandaríkin myndu ekki leitast við að efla varnir Úkraínu.

Rússar hyggist sækja fram af auknum þunga þar til stjórnvöld í Kænugarði sjái sér ekki annað fært en að gefa undan kröfum þeirra.

Ráðamenn í Evrópu virðast vera að komast á þá skoðun að Atlantshafsbandalagið geti ekki annað en svarað ögrunum Rússa. Edgars Rinkėvičs, forseti Lettlands, sagði meðal annars á Facebook að létu Rússar ekki af framferði sínu væri veruleg hætta á frekari átökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×