Íslenski boltinn

„Ljúft að klára leikinn svona“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Lárus Orri, þjálfari ÍA.
Lárus Orri, þjálfari ÍA. Sýn Sport

ÍA, botnlið Bestu deildar karla, sigraði Breiðablik á heimavelli 3-0 í kvöld og sótti mikilvæg þrjú stig í baráttunni um að halda sér uppi. Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari liðsins, var ánægður með spilamennsku sinna manna eftir leikinn.

„Þetta var alveg frábært og það sem er aðalatriðið í þessu er að þetta var verðskuldaður sigur. Vinnslan og samheldnin í liðinu og að sjá hversu mikið menn vildu sigurinn var frábært að sjá,“ sagði Lárus Orri eftir sigur kvöldsins.

„Frammistaðan var góð og ég get ekki pikkað út einn leikmann út úr þessu frekar en annan. Heilt yfir í liðinu það sem við gerðum var það sem við báðum um. Þegar liðið er með vinnusemi og einbeitingu. þá erum við alveg ágætir.“

Steinar Þorsteinsson, leikmaður ÍA, kom inn á sem varamaður á 88. mínútu og skoraði þriðja mark ÍA á lokamínútunni í uppbótatíma.

„Ég ætla ekki að ljúga að því að það var rosalega gott að sjá boltann í netinu, þó að það var komið ansi langt inn í leikinn. En það var ansi ljúft að klára þetta svona.“ sagði Lárus í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×