Körfubolti

Þýska­land vann Bret­land með 63 stiga mun

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dennis Schröder var öflugur í kvöld.
Dennis Schröder var öflugur í kvöld. EPA/Jussi Eskola

Þýskaland fór illa með Bretland á EM karla í körfubolta. Serbía er svo áfram með fullt hús stiga.

Serbía vann þægilegan sigur á Tékklandi í síðasta leik dagsins í 4. umferð riðlakeppninni, lokatölur 82-60.  Önnur úrslit í A-riðli voru þau að Tyrkland vann 20 stiga sigur á Eistlandi, 84-64, og Lettland lagði Portúgal með 16 stiga mun, lokatölur 78-62.

NBA-stjörnurnar Alperen Şengün (Tyrkland og Houston Rockets) og Kristaps Porziņģis (Lettland og Atlanta Hawks) voru allt í öllu. Şengün skoraði 21 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Porziņģis skoraði 21 stig, tók 9 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.

Staðan í A-riðli er þannig að Tyrkland og Serbía eru með fullt hús stiga. Lettland kemur þar á eftir með tvo sigra og tvö töp. Eistland og Portúgal hafa unnið einn leik og tapað þremur á meðan Tékkland hefur tapað öllum fjórum til þessa.

Í B-riðli vann Þýskaland ótrúlegan sigur á Bretlandi, lokatölur 120-57. Tristan da Silva var stigahæstur hjá Þýskalandi með 25 stig ásamt því að taka 5 fráköst. Dennis Schröder skoraði 19 stig og gaf fimm stoðsendingar. Franz Wagner skoraði 18 stig og gaf 10 stoðsendingar.

Þýskaland trónir á toppi B-riðils með fullt hús stiga. Önnur úrslit voru þau að Litáen vann nauman þriggja stiga sigur á Finnlandi, 81-78. Lauri Markkanen og Mikael Jantunen voru báðir með 19 stig í liði Finnlands en það dugði ekki til sigurs. Lauri tók einnig 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Litáen hoppar þar með upp fyrir Finnland í 2. sætið en bæði lið hafa unnið þrjá leiki og tapað einum.  

Svartfjallaland vann þá mikilvægan sigur á Svíþjóð, lokatölur 87-81. Svartfjallaland er því í 4. sæti - því síðasta sem kemst áfram - á kostnað Svíþjóðar þegar ein umferð er eftir. Bretland rekur svo lestina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×