Körfubolti

„Nokkur krúsjal at­riði sem féllu ekki með okkur“

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Már Friðriksson fékk slæmt högg í leiknum en tapið er mikið sárara.
Elvar Már Friðriksson fékk slæmt högg í leiknum en tapið er mikið sárara. vísir/Hulda Margrét

Elvar Már Friðriksson var vitanlega afar svekktur eftir tapið gegn Belgíu í dag, á EM í körfubolta, eftir að Ísland hafði verið yfir lengst af í leiknum. Í blálokin komust Belgar yfir og unnu að lokum 71-64.

„Ég held að það sé alveg augljóst [að tapið særi djúpt]. Að vera með yfirhöndina allan leikinn, vafamál í lokin sem mér fannst ekki falla með okkur, og sóknarleikurinn þeirra einhvern veginn aðeins beittari en okkar í lokin. Á endanum standa þeir uppi sem sigurvegarar. Við bara köstuðum þessu frá okkur,“ sagði Elvar við Henry Birgi Gunnarsson í Katowice.

Viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Elvar miður sín eftir tapið gegn Belgíu

Ísland tapaði lokakaflanum 16-2 og var Elvar spurður hvort að menn hefðu farið á taugum, þegar fyrsti sigurinn á EM var í sjónmáli:

„Ég veit ekki hvort þetta hafi snúist um taugar eða hvað. Alla vega var það ekki tilfinningin inni á vellinum. Mér fannst þetta bara spilast svona.

Þó það sé lélegt að vera að væla undan einhverjum dómum þá fannst mér nokkur „krúsjal“ atriði sem féllu ekki með okkur. Fyrir mitt leyti var ég kominn upp í skothreyfingu þegar þeir dæmdu að villan hefði verið „á gólfinu“, og þá hefði ég getað komið okkur sjö stigum yfir. Í staðinn missum við boltann og þeir fara yfir. Það var vendipunktur fannst mér. Þetta voru ekki einhverjar taugar sem tóku yfir, þetta bara spilaðist svona.“

Besta tækifæri Íslands á sigri virðist þarna hafa farið forgörðum en er mótið þá búið?

„Nei. Það er leikur á morgun á móti Póllandi og ef við vinnum hann eigum við enn séns á móti Slóveníu og svo er það Frakkland. Við leggjumst ekki niður eftir tvo leiki. Við bara höldum áfram. Þurfum að vera fljótir að gleyma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×