Íslenski boltinn

Óskar Hrafn: Stundum hata ég fót­bolta

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjáflari KR, sá sína menn spila vel en uppskera engin stig.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjáflari KR, sá sína menn spila vel en uppskera engin stig. vísir / jón gautur

KR tapaði gegn Stjörnunni 1-2 á Meistaravöllum í 20. umferð Bestu deildar karla í dag. KR-ingar fengu ótalmörg marktækifæri sem þeir náðu ekki að nýta. KR er sem stendur í 10. sæti með 23 stig og þarf Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari liðsins, að finna einhverja lausn ætli þeir að koma sér úr fallbaráttunni.

„Ég er sannarlega ósáttur með að taka ekki stig úr þessum leik. Það var eitt lið á vellinum í 90 mínútur. Sorglegt að við skulum ekki nýta eitt eða tvö eða þrjú af þessum fjölmörgu færum sem við fáum,“ sagði Óskar Hrafn, þjálfari KR, svekktur eftir leikinn.

Frammistaðan frábær

„Heilt yfir fannst mér frammistaðan frábær, bæði varnarlega og sóknarlega. Þeir komust varla að markinu okkur í 90 mínútur, nema nokkru sinnum með föstum leikatriðum. Ég sit með eftir með tilfinningu eftir leikinn þar sem ég er stoltur af liðinu. Ég er stoltur af frammistöðunni, framlaginu og dugnaðinum í þessu liði,“ sagði Óskar.

Stjarnan skapaði sér ekki mörg færi í þessum leik, en tókst engu að síður að skora tvö mörk úr föstum leikatriðum. Óskar var spurður hvort þessi mörk bendi til veikleika liðsins í föstum leikatriðum eða hvort hæð leikmanna hans hafi áhrif í varnarleiknum.

Ekki veikleiki í okkar liði

„Ég held þetta sé ekki veikleiki í okkar liði. Það gefur auga leið að þegar þú ert aðeins minni þá þarftu að beita öðruvísi brögðum við að dekka menn inni í teig. Við þurfum að vera betri í því, en einfaldasta leiðin til að verjast því, er að vera ekki að gefa hornspyrnur,“ sagði Óskar.

„Stundum hata ég fótbolta, en þetta er bara svona. Í grunninn líður mér betur en eftir Fram leikinn. Ég sá liðið mitt í dag, ég sá hugrekki og dugnað. Það er meira að byggja ofan á í þessum leik og við tökum það með okkur á Ísafjörð á sunnudaginn,“ sagði Óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×