Erlent

Trump látinn vita að nafn hans væri í Epstein-skjölunum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Donald Trump segir að vinslit hafi orðið milli hans og Jeffrey Epstein snemma á þessari öld.
Donald Trump segir að vinslit hafi orðið milli hans og Jeffrey Epstein snemma á þessari öld. EPA

Pam Bondi, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, er sögð hafa tilkynnt Donald Trump Bandaríkjaforseta að nafn hans væri að finna nokkrum sinnum í skjölum tengdum kynferðisbrotamanninum Jeffrey Epstein.

Frá þessu greinir The Wall Street Journal, en í kjölfar þess að miðillinn birti sína grein hefur fjöldi annarra fjölmiðla sagt þessar sömu fréttir.

Umræddar upplýsingar eru hafðar eftir ónefndum embættismönnum úr efri lögum bandaríska stjórnkerfisins.

Bondi mun hafa sagt Trump frá umræddum fregnum í maí síðastliðnum á fundi þar sem rætt var um að Alríkislögregla bandaríkjanna, FBI, væri að kanna gögn Epstein-málsins á nýjan leik. Það að Trump væri í skjölunum er ekki sagt hafa verið meiginumræðuefni fundarins, heldur málið almennt.

Jafnframt kemur fram að fjölda annarra nafna sé að finna í umræddum skjölum, þar á meðal nöfn annarra háttsettra einstaklinga.

Í frétt Wall Street Journal er bent á að það að nafn Trump sé í skjölunum þýði ekki að hann sé endilega bendlaður við neitt saknæmt.

Epstein, eins og frægt er orðið, lést í fangelsi árið 2019 meðan hann var til rannsóknar fyrir umfangsmikla kynferðis- og mansalsglæpi gagnvart börnum. Mál hans hefur vakið athygli á ný undanfarið, bæði vegna þess að ríkisstjórn Trump hætti við að birta ýmis gögn tengd máli hans, og vegna meintra tengsla Trump við Epstein.

Fyrir liggur að Epstein og Trump voru vinir eða kunningjar á árum áður, en að sögn Trump urðu vinslit þeirra á milli snemma á þessari öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×