Innlent

Fluttur á bráða­mót­töku með á­verka á höfði eftir líkams­á­rás

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fórnarlambið var flutt á bráðamóttöku.
Fórnarlambið var flutt á bráðamóttöku. Vísir/Vilhelm

Maður var fluttur á bráðamóttöku með áverka á höfði eftir líkamsárás í hverfi 133. Það hverfi nær yfir Grafarholt og Úlfarsárdal. Gerandi var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði en vitað er hver hann er.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu frá í nótt. Þar segir einnig frá því að bíll hafi farið út af veginum og oltið í Mosfellsbæ. Bíllinn var töluvert skemmdur og ökumaður og farþegi flutt á bráðamóttöku til skoðunar.

Í Árbæ var tilkynnt um líkamsárás. Minniháttar meiðsli hlutust af en gerandi var í annarlegu ástandi og vistaður í fangageymslu.

Í miðborginni var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi sem angraði verslunareigendur og starfsfólk veitingastaða. Við afskipti lögreglu neitaði maðurinn að gefa upp nafn og kennitölu og hélt áfram, að sögn lögreglu, almennum leiðindum. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×