Körfubolti

Hægt að skoða EuroBasket bikarinn og fá á­ritun hjá strákunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson og Martin Hermannsson með lukkudýri Eurobasket og EM-bikarnum. Bikarinn var líka við Öxarárfoss á Þingvöllum.
Ægir Þór Steinarsson og Martin Hermannsson með lukkudýri Eurobasket og EM-bikarnum. Bikarinn var líka við Öxarárfoss á Þingvöllum. @kkikarfa

Ísland verður með á Eurobasket mótinu í körfubolta í haust og Ísland fékk sjálfan Evrópumeistarabikarinn í heimsókn í tilefni af því.

EuroBasket bikarinn er á ferð um Evrópu þessa dagana og stoppar hann hjá átta þjóðum af þeim tuttugu og fjórum sem komast á mótið. Það er hjá þeim fjórum þjóðum þar sem lokakeppnin fer fram ásamt þeim fjórum svokölluðum samstarfsþjóðum.

Ísland og Pólland náðu samkomulagi um að Ísland spili í Póllandi á EuroBasket í haust og er Ísland því ein af þessum fjórum samstarfsþjóðum.

EM-bikarinn er kominn til landsins og mun fara á nokkra þekkta staði á Íslandi þar sem hann verður myndaður í íslenskri náttúru.

Einnig mun bikarinn heimsækja eitt af þeim körfuboltanámskeiðum sem er í gangi þessa daganna. Rúmlega þúsund Íslendingar hafa nú þegar tryggt sér miða á leiki á Íslands á mótinu.

Á morgun er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, fá að sjá Eurobasket bikarinn með berum augum og hitta landsliðsstrákana í leiðinni.

Á morgun laugardag frá klukkan 14.00 til 15.00 mæta landsliðsmenn í Kringluna með bikarinn þar sem í boði verður að fá árituð plaköt og alls konar körfuboltaglaðning frá EuorBasket á meðan birgðir endast.

Lukkudýr EuroBasket verður einnig á svæðinu. Það er því hægt að kíkja á bikarinn og lukkudýrið og fá mynd af sér með þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×