Lífið

Sól­veig og Hall­dór gáfu dótturinni nafn

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Sólveig og Halldór eignuðust stúlku í apríl.
Sólveig og Halldór eignuðust stúlku í apríl.

Sólveig Sigurðardóttir, sem var ein fremsta Crossfit-kona Íslands, og kærasti hennar Halldór Karlsson fatahönnuður, hafa gefið dóttur sinni nafn. Stúlkan fékk nafnið Kolbrún Kría. Frá þessu greinir parið í færslu á samfélagsmiðlum.

Kolbrún litla er fyrsta barn parsins. Hún kom í heiminn þann 21. apríl síðastliðinn, átta vikum fyrir tímann, og virðist braggast vel. Halldór og Sólveig byrjuðu saman árið 2023.

Halldór er útskrifaður fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands, er þjálfari í Mjölni auk þess sem hann heldur úti hlaðvarpinu Sterakastið ásamt tvíburabróður sínum Benedikt Karlssyni og Böðvari Tandra Reynis­syni.

Sólveig keppti í einstaklingskeppni á Heimsleikunum í CrossFit árið 2022 þar sem hún lenti í 34. sæti. Í mars í fyrra ákvað hún að hætta í greininni eftir tíu ára feril.

„Að taka þessa ákvörðun var eitt það erfiðasta sem ég hef gert í mínu lífi,“ sagði Sólveig í myndbandsbloggi á YouTube þegar hún ræddi ákvörðunina um að hætta: „Það er svo margt annað í mínu lífi sem ég vil setja í forgang. Ég vil nota minn tíma og þekkingu til að hjálpa öðru fólki.“

„Ég hefði viljað sjá mig vera hundrað prósent þarna, því ég náði ekki að gera mitt besta. Ég stóð mig ekki nógu vel og ég er leið yfir því. Það tímabil tók mikinn toll á mig andlega,“ sagði hún einnig.

Það má horfa á allt myndbandið hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.