Það sem við urðum vitni að í Kastljósi í gærkvöld er nýr kafli í pólitískum vinnubrögðum forsætisráðherra og hann er áhyggjuefni fyrir alla sem vilja sjá heilbrigt og virkt lýðræði. Þar var ekki bara ráðist að stjórnarandstöðunni, heldur var sú árás reist á rangfærslum, útúrsnúningum og tilraun til að stimpla lögmæt sjónarmið minnihlutans sem falsfréttir.
Það er grafalvarlegt þegar forsætisráðherra – æðsti embættismaður þjóðarinnar – vænir þá sem gagnrýna ríkisstjórnina um að tala í falsfréttastíl. Slíkt tal á ekkert skylt við stjórnmál sem byggja á málefnalegri umræðu, rökum og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Það er hins vegar bein tilraun til að þagga niður í gagnrýni og merkja andstæðinga sem óheiðarlega.
Við verðum að segja það skýrt: Þetta er ekki bara rangt, þetta er popúlismi í sinni tærustu mynd. Að grípa til þess að gera óvini úr þeim sem spyrja nauðsynlegra spurninga, í stað þess að svara þeim. Forsætisráðherra hefur ekki getað bent á eitt atriði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið rangt með í umræðum um veiðigjöld heldur hefur hún ákveðið að grípa til gífuryrða.
Í stað þess að horfast í augu við þá staðreynd að frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld hefur sætt harðri og rökstuddri gagnrýni – meðal annars frá sveitarfélögum vítt og breitt um landið, sem hafa lýst alvarlegum áhyggjum af áhrifum þess á byggðir og atvinnulíf – kýs forsætisráðherra að gera lítið úr þessari umræðu og stilla sér upp sem fórnarlambi málþófs.
En staðreyndirnar liggja fyrir:
–Tvær ríkisstofnanir hafa bent á að forsendur frumvarpsins séu rangar.
–Útreikningar sýna að veiðigjöldin gætu numið yfir 70% af hagnaði fyrirtækja – og 80% í heildarálagi með öðrum sköttum.
–Sveitarfélög hafa sameinast um andstöðu og varað við samfélagslegum afleiðingum.
Þetta er ekki „falsfréttastíll“. Þetta eru staðreyndir. Og þessi staðreynd stendur einnig: Stjórnarandstaðan hefur aðeins eitt tæki til að bregðast við þegar óvandað frumvarp er keyrt í gegn á lokadögum þings – og það er að tala. Að spyrja. Að taka málefnalega umræðu. Að vanda okkur.
Það er lýðræðisleg skylda okkar í þeirri stöðu sem upp er komin.
Við í Sjálfstæðisflokknum ætlum að halda áfram að tala – ekki til þess að tefja, heldur til þess að vernda. Vernda atvinnulífið, byggðirnar, fólkið í landinu. Við sjáum í gegnum orðræðu sem reynir að gera ábyrgð tortryggilega og andstöðu að skömm.
Það er ekki ábyrgt að keyra slæm lög í gegn með valdboði. Það er ábyrgt að stöðva þau.
Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins.