Að sögn staðgengils upplýsingafulltrúa Landspítalans er tækið en óvirkt en að staðan líti vel út. Litlar sýnilegar skemmdir séu á tækinu en ekki verður hægt að ganga úr skugga um ástand vélarinnar fyrr en hún verður keyrð í gang á nýjan leik.
Við losun skúringatækisins þurfti að keyra niður segulsvið segulómtækisins. Til þess að hægt verði að fullreyna ástand tækisins þarf að keyra það upp og til þess þarf mikið magn helíums sem þurfti að panta að utan. Spítalinn bíður sendingarinnar nú og er hún væntanleg á næstu dögum.
Keyra þurfti segulómtækið niður um helgina til að losa skúringatækið utan af því. Segull segulómtækisins er svo sterkur að ógerningur væri að losa það með handafli. Styrkur segulsins er allt að 300 til 600 sinnum sterkara en ísskápasegull.
Staðgengill upplýsingafulltrúa hefur ekki upplýsingar um alvarlegar raskanir á heilbrigðisþjónustu í tengslum við óvirkni segulómtækisins.