Þar sagði Trump að breytingin ætti að styrkja innlendan stáliðnað og framboð innanlands þannig þau þurfi ekki að treysta á kínverska framleiðslu.
Fjallað er um málið á vef BBC í dag. Þar kemur fram að á sama fundi hafi Trump tilkynnt að fjárfesta ætti fjórtán milljörðum í stáliðnaðinn í samstarfi framleiðenda í Bandaríkjunum og Japan en sagði þó á sama fundi að enn ætti eftir að staðfesta samkomulagið. Í frétt BBC segir að fólk hafi, í tengslum við þetta samkomulag, mestar áhyggjur af því að lög um vinnuréttindi verði ekki tryggð í Japan.
„Það verða engar uppsagnir og engum verkefnum útvistað, og allir stáliðnaðarmenn fá fljótlega vel verðskuldaðan fimm þúsund dollara bónus,“ sagði Trump á fundi með stáliðnaðarmönnum í Pittsburgh við mikinn fögnuð.
Þá sagði hann einnig að hann hefði, með tollahækkunum í sinni fyrri forsetatíð, bjargað stáliðnaðinum með hækkun tolla og að hann ætlaði nú að gulltryggja hann með enn hærri tollum. Sala á stáli hefur minnkað síðustu ár og gróði minnkað sömuleiðis. Trump sagði í ræðu sinni að með því að hækka tolla í 50 prósent myndi hann tryggja að ekki væri hægt að líta fram hjá þeim.
Minni eftirspurn eftir bandarísku stáli
Í frétt BBC segir að bandarískur stáliðnaður hafi dregist saman síðustu ár og aukist í Kína, Indlandi og Japan. Fjórðungur alls stáls sem er notað í Bandaríkjunum er innflutt og það hefur reitt Trump hversu mikið bandarískur iðnaður hefur þurft að reiða sig á stál frá bæði Mexíkó og Kanada.
Tilkynningin kom stuttu eftir að dómstóll í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að Trump fór út fyrir valdheimildir sínar þegar hann fyrirskipaði tollahækkanir á fjölmörg ríki fyrr á árinu í skjóli laga um neyðarvald.
Dómurinn var kveðinn upp í vikunni af Alþjóðaviðskiptadómi Bandaríkjanna í Manhattan en var umsvifalaust áfrýjað til æðri dómstóls af ríkisstjórn Trump og því er framhaldið óljóst. Ríkisstjórnin er sögð efast um hvort dómstóllinn hafi umboð til að dæma í málinu. Tvö mál voru til umfjöllunar samtímis hjá dómstólnum, eitt frá ríkjum sem eiga í viðskiptasambandi við Bandaríkin og annað frá bandalagi nokkurra ríkisstjórna innan Bandaríkjanna. Ekki var í málsóknunum fjallað um tolla hans á innflutt stál og ál.