Um klukkan fimm síðdegis í gær barst lögreglu tilkynning um einstakling í sjónum við Fiskislóð. Í kjölfarið var ráðist í umfangsmikla leit sem bar ekki árangur og var hætt á tíunda tímanum í gærkvöldi.
Leit hófst á ný um klukkan hálf tvö í dag, eftir að viðbragðsaðilar höfðu ráðið ráðum sínum og skipulagt framkvæmd leitarinnar. Baldur Ólafsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að þyrlu Landhelgisgæslunnar hafi verið flogið yfir sama leitarsvæði og í gær og sú leit hafi fljótlega borið árangur.
Talið sé að um manninn sem leitað hefur verið að síðan í gær sé að ræða, en ekkert hafi verið staðfest í þeim efnum.
Landsbjörg, slökkvilið, Landhelgisgæslan, sérsveitin og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í leitinni að manninum.
