Upp­gjörið: Valur - Haukar 30-28 (1-0) | Engin þynnka í Evrópu­meisturunum

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Thea Imani var markahæst Valskvenna
Thea Imani var markahæst Valskvenna Vísir/Pawel

Valur sigraði í kvöld Hauka 30-28 í fyrsta leik liðanna, í úrslitaeinvígi Olís deild kvenna. Liðið er því komið í 1-0 í einvíginu, en það þarf þrjá sigra til þess að standa uppi sem Íslandsmeistari.

Fyrri hálfleikurinn fór hægt af stað þar sem það var ekki búið að skora nema þrjú mörk í öllum leiknum eftir sjö mínútur. Valskonur komust þá aðeins í gírinn og voru komnar í stöðuna 4-1 þar fljótlega á eftir.

Þar á eftir varð leikurinn mjög jafn og hann var það alveg fram að 25. mínútu. Þá kom aftur upp markaþurrð hjá Haukum sem skoruðu ekki nema eitt mark úr víti á loka sekúndum hálfleiksins. Lokatölur í hálfleik því 14-11 Val í vil.

Í seinni hálfleik var sagan svipuð, mikill baráttuleikur og mjög jafn. Hauka konur náðu hins vegar aldrei að minnka muninn í minna en tvö mörk. Á 47. mínútu fær svo Lovísa Thompson að lýta beint rautt spjald fyrir fólskulegt brot á Elín Klöru Þorkelsdóttir.

Það hægði þó ekkert á heimaliðinu sem náði að auka forskotið í fimm mörk þegar fimm mínútur voru eftir. Hauka liðið pressaði hátt og barðist af fullum krafti á loka mínútunum en náðu enn og aftur ekki að minnka muninn í minna en tvö mörk og loka staðan því 30-28

Atvik leiksins

Lovísa Thompson fær beint rautt spjald eftir fólskulegt brot á Elín Klöru Þorkelsdóttir. Dómararnir fóru í skjáinn og tóku þar rétta ákvörðun. Það var líka ekki að sjá á Lovísu að hún hafi verið ósammála, heldur bað hún Elínu bara afsökunar.

Stjörnur og skúrkar

Hafdís átti stórleik í markinuVísir/Pawel

Hafdís Renötudóttir áttu frábæran leik í marki Vals. Hún varði 18 bolta og var með 40% markvörslu í leiknum. Thea Imani Sturludóttir var markahæst hjá Val með sjö mörk úr tólf skotum, auk þess sem hún var með fjórar stoðsendingar.

Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst í liði Hauka með sjö mörk úr tólf skotum auk átta stoðsendinga. Mikið af þessum stoðsendingum voru á Alexöndru Líf Arnarsdóttir sem var frábær á línunni, með sex mörk úr sjö skotum.

Rut Jónsdóttir og Elín Klara voru með flesta tapaða bolta hjá Haukum, báðar með fjóra. Þá var markvarslan hjá Haukum ekki nærri því jafn góð og hjá Val. Alls varði liðið sex bolta, Sara Sif Helgadóttir með fimm, og þar af leiðandi 18% markvörslu, og Elísa Helga Sigurðardóttir varði einn, og var með 12,5% markvörslu.Dómararnir

Dómaraparið átti ekki sinn besta dag í dag. Það voru þónokkrum sinnum sem manni fannst þeir bara missa af hlutum sem voru að gerast inn á vellinum. Auk þess sem línan með tveggja mínútna brottvísanir virkaði aldrei samkvæm sjálfum sér.

Stemning og umgjörð

Það var vel mætt í N1-höllina hjá báðum stuðningsmannaliðum. Stemningin var í gangi allan leikinn, trommusláttur og söngvar.

Stefán: Við viljum meina að við eigum eitthvað inni

Stefán Arnarson var svekktur með tapiðVísir/Pawel

Stefán Arnarson þjálfari Hauka var svekktur með tapið í kvöld þegar hann mætti í viðtal.

„Í fyrri hálfleik erum við með allt of marga tapaða bolta, og með fjórtán skotfeila, erum með tíu tapaða bolta þannig 24 samtals. Það er bara allt of mikið á móti, og þær ná að byggja upp forskot. Við náðum að minnka þetta mest niður í tvö í leiknum, en við vorum heldur ekki nægilega öflugar varnarlega. Þegar við erum ekki öflug varnarlega þá kemur náttúrlega ekki markvarslan með og við fáum of mörg mörk á okkur. Við getum betur og það er bara vonbrigði að tapa,“ sagði Stefán.

Valskonur unnu á dögunum Evrópubikarinn, sem gefur til kynna að þær hafa gríðar sterkt lið. Stefán telur það því hughreystandi að tapa bara með tveimur mörkum í fyrsta leiknum, á útivelli.

„Við viljum meina að við eigum eitthvað inni eftir þennan leik. Valsliðið er gríðarlega sterkt og þetta er erfiður heimavöllur. Við hefðum getað gert betur og þess vegna er þetta vonbrigði að vera ekki að ná í úrslit,“ sagði Stefán.

Þegar rétt tæpar tíu mínútur eru eftir fara Haukakonur í að pressa mjög hátt á Valsliðið. Þær héldu það síðan út restin af leiknum og náðu að minnka muninn með því.

„Við höfum stundum spilað þetta í vetur, og þetta gengur upp stundum. Þú getur ekki spilað þetta lengi, þetta er það mikið af góðum leikmönnum sem Valur hefur, sem eru fljótar á löppunum. Við náum aðeins að minnka muninn, en heilt yfir þurfum við bara að gera miklu betur varnarlega,“ sagði Stefán.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira