Tilkynnt var í morgun að nefndin hefði ákveðið að lækka stýrivexti um 0,25 punkta og eru þeir nú 7,5 prósent. Næsta ákvörðun nefndarinnar er ekki fyrr en 20. ágúst.
Á kynningarfundinum munu Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu og Karen Áslaug Vignisdóttir, aðalhagfræðingur Seðlabankans og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu, gera grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar, efni Peningamála og svara spurningum fundargesta.
Beina útsendingu má sjá í spilaranum hér að neðan:
Loksins aftur appelsín
Sem áður segir verður fundurinn haldinn í húsakynnum bankans við Kalkofnsveg í Reykjavík. Fundir Seðlabankans hafa um nokkurra mánaða skeið verið haldnir í Safnahúsinu á Hverfisgötu vegna viðgerða á húsakynnum bankans, sem eru í daglegu tali kölluð Svörtuloft.
Á síðasta fundi, þegar vextir voru lækkaðir í fjórða skiptið í röð, var í fyrsta skipti boðið upp á flatkökur líkt og tíðkast í Svörtuloftum.
„Það var alltaf þannig að Seðlabankinn bauð upp á flatkökur með hangikjöti og appelsínugos. Ég get sagt að við förum bráðum að taka okkar húsnæði aftur í notkun og þá verður aftur bæði boðið upp á flatkökur og appelsín á öllum fundum,“ sagði Ásgeir glaður í bragði þegar hann ræddi við fréttastofu að loknum síðasta fundi.