Viðskipti innlent

Sylvía Kristín ráðin for­stjóri Nova

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sylvía Kristín Ólafsdóttir kemur frá Icelandair til Nova.
Sylvía Kristín Ólafsdóttir kemur frá Icelandair til Nova.

Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Nova, Hún tekur við af Margréti Tryggvadóttir, sem hefur gegnt starfinu í sjö ár, og mun hefja störf hjá Nova með haustinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nova til Kauphallarinnar.

Sylvía Kristín kemur til Nova frá Icelandair þar sem hún hefur starfað frá 2018, sem framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðsmála frá 2022 og sem framkvæmdastjóri rekstrar frá ágúst 2023. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo. Sylvía starfaði einnig um árabil hjá Amazon, fyrst við rekstur og áætlanagerð og síðan við Kindle-deild fyrirtækisins.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Þá hefur Sylvía setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og sjóða.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Sylvíu til liðs við Nova og enginn vafi á að hún er rétta manneskjan til að taka við keflinu af Margréti seinna á árinu. Sylvía býr yfir mikilli þekkingu á rekstri og markaðsmálum, auk mikilvægrar reynslu úr tækni- og hugbúnaðarheiminum, þar sem fjölbreytt, vel samsett teymi og góð innri menning skapar árangur. Þessi þekking mun koma sér vel nú þegar við tökum stefnuna á enn frekari vöxt. Nova er í afburðasterkri stöðu til að renna enn frekari stoðum undir sterkan framtíðarvöxt félagsins og við hlökkum til næsta kafla í sögu Nova með Sylvíu,“ sagði Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarformaður Nova, um ráðninguna.

Þann 7. maí var greint frá því að Margrét Tryggvadóttir hefði óskað eftir að láta af störfum hjá Nova eftir sjö ár í forstjórastól og 18 ár hjá félaginu. Þar kom fram að Margrét myndi gegna starfinu áfram til 1. desember og sinna ráðgjöf fyrir félagið eftir að hún léti af störfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×