Veður

„Dýr­legt veður eins langt og séð verður“

Árni Sæberg skrifar
Það er óhætt að hvetja fólk til að skella sér út í góða veðrið næstu daga.
Það er óhætt að hvetja fólk til að skella sér út í góða veðrið næstu daga. Vísir/Vilhelm

Veðurfræðingur segir dýrlegt veður verða á öllu landinu verða næstu daga. Fólk skuli fara varlega með eld og vökva þær plöntur sem það vill að lifi þurrkatíðina af.

Veðrið hefur leikið við landann síðustu daga og ef marka má orð Haraldar Ólafssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands verður ekkert lát á rjómablíðunni á næstunni. Margrét Helga Erlingsdóttir ræddi við hann í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það lítur út fyrir rjómablíðu á öllu landinu. Það verða einhverjir þokubakkar úti við ströndina, sérstaklega að næturlagi, en annars dýrlegt veður eins langt og séð verður. Það er nokkurn vegin ein vika.

Hlýjast fyrir norðan

Haraldur segir að veðurgæðunum verði nokkuð jafnt skipt eftir landshlutum. Þó verði líklegast allra hlýjast á Norður og Norðausturlandi og víða mjög hlýtt til fjalla, allavega miðað við það sem gengur og gerist á Íslandi.

„En þokkalegasta veður, mjög gott veður, dýrlegt veður í öllum landshlutum.“

Menn fari varlega með eld

Haraldur segir að góða veðrið verði ekki aðeins tekið út með sældinni. Gróður sé víða þegar orðinn þurr. „Ég held að menn ættu að huga að því að fara varlega með eld og líka að vökva þær plöntur sem menn vilja vaxi og dafni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×