Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að lægðasvæði suðaustur af landinu og hæð yfir Grænlandi beini til landsins norðaustan- og norðanátt, víða verði allhvass vindur eða strekkingur í dag.
Snjókomubakki verði viðloðandi á Austurlandi, sums staðar talsverð úrkoma á þeim slóðum fram eftir degi og færð gæti spillst á fjallvegum. Á norðvestanverðu landinu verði snjókoman slitróttari og suðvestanlands megi búast við þurru og björtu veðri.
Hiti yfir daginn verið frá frostmarki norðaustantil upp í níu stig við suðurströndina. Síðdegis fari að draga úr ofankomu.
Norðan kaldi eða stinningskaldi verði á morgun og víða él, en yfirleitt þurrt sunnantil. Hiti verði um eða undir frostmarki, en eitt til sex stig sunnanlands yfir daginn.
Á föstudag lægi og rofi til fyrir norðan, og um helgina sé útlit fyrir hæglætisveður í flestum landshlutum.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Í dag:
Norðaustan og norðan 10-18 m/s. Snjókoma á Austurlandi, og él norðvestanlands, en þurrt um landið suðvestanvert. Fer að draga úr ofankomu síðdegis. Hiti yfir daginn frá frostmarki norðaustantil upp í 9 stig við suðurströndina.
Á morgun:
Norðan 8-13 og víða él, en yfirleitt þurrt sunnantil. Hiti um eða undir frostmarki, en 1 til 6 stig sunnanlands yfir daginn.
Á föstudag (föstudagurinn langi):
Norðan 5-13 m/s, en hægari eftir hádegi. Skýjað að mestu norðan- og austantil, en léttir til síðdegis. Yfirleitt bjart sunnan- og vestanlands. Hiti yfir daginn frá frostmarki norðaustantil upp í 8 stig sunnan heiða, en allvíða næturfrost.
Á laugardag:
Hæg austlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en skýjað með köflum við ströndina. Stöku skúrir eða él vestast. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag (páskadagur):
Austan strekkingur syðst á landinu, annars hægari vindur. Víða þurrt og bjart veður, en skýjað austantil og á Ströndum. Hiti áfram svipaður.
Á mánudag (annar í páskum):
Austlæg átt, skýjað með köflum og dálítil væta á stöku stað, en bjart að mestu á Norðurlandi. Hiti 0 til 8 stig yfir daginn, hlýjast sunnan- og suðvestantil.
Á þriðjudag:
Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt. Skýjað að mestu og sums staðar lítilsháttar rigning eða slydda, en úrkomumeira austantil um kvöldið. Heldur hlýnandi.