Upp­gjörið: Njarð­vík - Haukar 94-78 | Njarð­víkingar settu í fimmta gír í seinni

Siggeir Ævarsson skrifar
Brittany Dinksins fór mikinn í kvöld, setti 29 stig, þar af 15 úr þristum
Brittany Dinksins fór mikinn í kvöld, setti 29 stig, þar af 15 úr þristum Vísir/Jón Gautur

Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld oddaleik þegar liðið lagði Hauka 94-78 í Njarðvík. Frábær frammistaða heimakvenna í seinni hálfleik tryggði þeim að lokum öruggan sigur.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af og Haukar komust yfir í upphafi seinni hálfleiks en þá settu Njarðvíkingar í gírinn og náðu forystunni mest upp í 20 stig en þegar vel var liðið í fjórða leikhluta voru Haukar aðeins búnir að skora eitt stig. 

Njarðvíkingar eru því búnir að vinna sig til baka úr 0-2 stöðu og eru á leið í oddaleik í Ólafssal á þriðjudag.

Það var augljóst frá fyrstu mínútu að Njarðvíkingar voru ekki á þeim buxunum að fara í sumarfrí í kvöld en heimakonur byrjuðu leikinn með miklum látum. Þær settu fimm þrista á fyrstu fjórum mínútunum og leiddu 19-14. Bæði lið voru í miklu stuði í byrjun og staðan eftir fyrsta leikhluta 25-20.

Haukar hleyptu Njarðvíkingum þó ekki langt frá sér framan af leik og komust raunar yfir í upphafi seinni hálfleiks. Augnablikið virtist í smástund vera að sveiflast yfir til þeirra en þá komust Njarðvíkingar í mikinn ham og leiddu með tíu stigum fyrir fjórða leikhlutann, 69-59.

Haukum gekk ekkert að skora í upphafi fjórða leikhluta en gestirnir voru aðeins búnir að skora eitt stig þegar hann var um það bil hálfnaður. Á sama tíma gekk flest allt upp hjá Njarðvíkingum sem lokuðu þessum leik af mikilli fagmennsku, lokatölur í Njarðvík 94-78.

Atvik leiksins

Í upphafi annars leikhluta setti Brittany Dinksins Þóru Kristínu á skauta með þeim afleiðingum að Þóra datt á rassinn og Dinksins setti þrist yfir hana.

Stjörnur og skúrkar

Brittany Dinksins var óstöðvandi á löngum köflum í kvöld. 29 stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar. Tapaði reyndar sex boltum en það kom ekki að sök.

Paulina Hersler og Emilie Hessedal nýttu sér hæðina vel og tóku 14 fráköst hvor og Hersler bætti við 16 stigum.

Þá átti Lára Ösp Ásgeirsdóttir frábæra innkomu af bekknum, skoraði tólf stig og setti þrjá þrista í röð undir lok þriðja leikhluta.

Hjá Haukum var Lore Devos lang stigahæst með 26 stig og 15 fráköst að auki. Rósa Björk Pétursdóttir lét þristunum rigna, 4/6 í þristum og 17 stig alls.

Aðrir leikmenn Hauka eiga mikið inni sóknarlega. Sem dæmi má nefna að Tinna Guðrún var 1/12 í skotum og Sólrún Inga 1/7 í þristum.

Dómararnir

Þeir Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson og Jón Þór Eyþórsson dæmdu leikinn í kvöld. Lentu í basli með einn og einn dóm en þetta blessaðist nú allt að lokum hjá þeim herramönnum.

Stemming og umgjörð

Hin risastóra Icemar höll var þéttsetin í kvöld og mikil læti í húsinu. Allt eins og það á að vera. Stuðningssveit Njarðvíkinga fór mikinn og eiga þeir hrós skilið fyrir þeirra frammistöðu.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira