Körfubolti

Hristi af sér meiðsli á „ó­dauð­lega“ ökklanum og fagnaði sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Edwards í viðtali eftir sigur Minnesota Timberwolves á Golden State Warriors.
Anthony Edwards í viðtali eftir sigur Minnesota Timberwolves á Golden State Warriors. getty/David Berding

Þrátt fyrir að hafa meiðst á ökkla í fyrri hálfleik skoraði Anthony Edwards tuttugu stig þegar Minnesota Timberwolves jafnaði metin í einvíginu gegn Golden State Warriors með 117-93 sigri í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Staðan í einvíginu er jöfn, 1-1.

Edwards meiddist um miðjan 2. leikhluta og fór til búningsherbergja til að fá meðhöndlun. Þjálfari Minnesota bjóst við að Edwards hefði lokið leik.

„Ég hafði miklar áhyggjur. Ég bjóst ekki við að sjá hann aftur inni á vellinum í leiknum ef ég á að vera heiðarlegur,“ sagði Chris Finch.

Edwards hristi hins vegar meiðslin af sér og sneri aftur á völlinn í seinni hálfleik. Og þar skoraði hann þrettán af tuttugu stigum sínum. Edwards tók einnig níu fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal boltanum þrisvar sinnum.

„Minn maður er með ódauðlegan ökkla,“ sagði samherji Edwards, Josh Minott, eftir leikinn.

Stephen Curry lék ekki með Golden State vegna meiðsla sem hann varð fyrir í fyrsta leiknum sem Stríðsmennirnir unnu, 88-99.

Jimmy Butler skoraði sautján stig fyrir Golden State í nótt en liðið komst lítt áleiðis gegn sterku liði Minnesota. Julius Randle var stigahæstur Úlfanna með 24 stig auk þess sem hann tók sjö fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Nickeil Alexander-Walker skoraði tuttugu stig líkt og Edwards.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×