United missti niður 2-0 forystu í leiknum og lenti síðan 2-4 undir í framlengingunni. Þá gáfust fjölmargir stuðningsmenn United upp og yfirgáfu leikvang draumanna. Þetta varð hins vegar engin martröð heldur þvert á móti.
Þetta hlýtur því að teljast vera ein versta ákvörðun þeirra á ævinni svona eftirá.
Leikmenn Manchester United gáfust nefnilega ekki upp, skoruðu þrjú mörk á síðustu sex mínútum í framlengingunni og tryggðu sér 5-4 sigur.
Þetta er í fyrsta sinn sem skoruð eru fimm mörk í einni og sömu framlengingunni.
Þeir sem fóru ekki af vellinum munu væntanlega tala um þetta kvöld um ókomna tíð.
Þetta nær kannski ekki alveg endurkomunni á móti Bayern München í Barcelona 1999 en var engu að síður mögnuð stund fyrir félagið á mikilvægum tíma.
Tap í gær hefði þýtt að tímabilið væri búið og staðfest sem það allra versta í sögu liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Nú á liðið aftur á móti enn möguleika á það tryggja sér Meistaradeildarsæti með því að vinna Evrópudeildina.
Það náðist myndband af þessum stuðningsmönnum Manchester United sem fóru of snemma en reyndu síðan að finna sér skjá til að fylgjast með þessum ótrúlegu lokamínútum. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.