Körfubolti

„Erum á upp­leið og ætlum að halda á­fram“

Siggeir Ævarsson skrifar
Sara á fleygiferð gegn Grindavík fyrr í vetur
Sara á fleygiferð gegn Grindavík fyrr í vetur Vísir/Pawel

Íslandsmeistarar Keflavíkur afgreiddu nýliða Tindastóls nokkuð snyrtilega 3-0 í einvígi þeirra í 8-liða úrslitum Bónus-deildar kvenna en Keflavík hafði mikla yfirburði í leik liðanna í kvöld þar sem lokatölur urðu 88-58.

Sara Rún Hinriksdóttir mætti í viðtal eftir leik en hún vildi þó ekki meina að þetta hafi verið auðveldir leikir.

„Bara mjög ánægð með liðið og virkilega ánægð með sigurinn. Leikirnir kannski búnir að enda með miklum mun en þetta er ekki búið að vera auðvelt og við erum búnar að hafa töluvert fyrir þessu. Mér finnst við sem lið á uppleið núna. Erum kannski ekki búnar að eiga alveg okkar besta tímabil en erum svolítið á uppleið og ætlum að halda áfram þangað.“

Það er óumdeilt að það eru miklir hæfileikar í Keflavíkurliðinu en byrjunin á tímabilinu lofaði ekki góðu. Undanfarnar vikur hafa hlutirnir þó verið að smella og Sara gat gefið skýringu á þessum viðsnúningi.

„Okkur er bara ekkert sama. Við erum bara keppnisstelpur og erum bara ógeðslega gíraðar í þetta. Ógeðslega spenntar og allar á sömu blaðsíðunni.“

Sara sagðist vera spennt fyrir næstu umferð en það er engin leið að spá um hvaða liði Keflvíkingar mæta næst.

„Að sjálfsögðu hugar maður aðeins lengra en tekur samt einn leik í einu. Maður er svona aðeins búin að  horfa á hina leikina og þetta eru óvænt úrslit sem eru að koma. Þannig að það er bara spennandi, maður veit ekkert hvaða lið við fáum næst. Þetta er bara skemmtileg deild og kvennakarfan á Íslandi á uppleið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×