Innlent

Fanga­geymslur fullar eftir nóttina

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það virðist hafa verið nokkuð mikið um ölvun víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. 
Það virðist hafa verið nokkuð mikið um ölvun víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í nótt.  Vísir/GVA

Fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu voru fullar eftir eril næturinnar og kvöldsins. Samkvæmt dagbók lögreglunnar gistu tólf í fangageymslu í nótt. Alls voru 97 mál bókuð í kerfum lögreglunnar.

Karlmaður var handtekinn fyrir að slá annan mann með glerflösku á skemmtistað og annar handtekinn fyrir að selja fíkniefni úr bíl sínum í miðbænum. Kona var handtekin fyrir utan skemmtistað sem neitaði að segja til nafns en samkvæmt dagbók var hún óviðræðuhæf vegna ölvunar.

Þá handtók lögreglan annan ölvaðan mann sem var með ísexi. Samkvæmt dagbók var hann afar rólegur og ekki að ógna neinum en var þó handtekinn og fluttur á lögreglustöð til viðræðna.

Fleiri voru handteknir vegna ofurölvunar í bænum. Einhverjir fengu að fara heim á meðan aðrir voru vistaðir vegna ástands síns.

Þá segir í dagbók að lögregla hafi einnig sinnt útkalli vegna hávaða í heimahúsi.

Lögreglan á stöð 2 í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi sinnti útkalli vegna elds í bifreið en ekki er tilkynnt í dagbók hvar eldurinn átti sér stað.

Lögregla í Kópavogi og Breiðholti sinnti svo útkalli vegna líkamsárásar á krá í hverfinu auk þess sem lögreglan fór í aðgerðir vegna gruns um fíkniefnasölu í hverfinu. Lögregla fann við húsleit fíkniefna sem hún telur að hafi verið ætlað til dreifingar.

Lögregla í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ var kölluð til vegna hóps ungmenna sem safnaðist saman á bílastæði. Eitt ungmennanna var með hafnaboltakylfu og mörg þeirra ölvuð.

Þá sinnti lögregla einnig útkalli vegna skemmda á leikskóla. Tveir höfðu klifrað upp á þak og köstuðu steinum í rúður. Ekki kemur fram hvar bílastæðið eða leikskólinn eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×