Erlent

TikTok hólpið í bili

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Donald Trump hefur frestað fyrirhuguðu TikTok banni um að minnsta kosti 75 daga á meðan viðræður um mögulega sölu til Bandaríkjanna standa yfir.
Donald Trump hefur frestað fyrirhuguðu TikTok banni um að minnsta kosti 75 daga á meðan viðræður um mögulega sölu til Bandaríkjanna standa yfir. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur framlengt frest á fyrirhuguðu TikTok banni í Bandaríkjunum um 75 daga. Lögin áttu að taka gildi á morgun. Hann segir að samningaviðræður við yfirvöld í Kína hafi gengið vel og hann ætli áfram að vinna hörðum höndum að því að koma í veg fyrir bannið.

„Ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að samningi til þess að bjarga TikTok, og við höfum náð miklum árangri. Samningurinn þarfnast meiri vinnu ... þess vegna ætla ég að skrifa undir forsetatilskipun sem heldur TikTok gangandi í 75 daga til viðbótar,“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðlum.

Þurfa að selja til Bandaríkjanna

Lög sem voru til þess ætluð að þvinga kínverska eigendur TikTok til að selja starfsemi miðilsins í Bandaríkjunum eða loka honum áttu að taka gildi í janúar, en Trump frestaði gildistöku þeirra um 90 daga þegar hann tók við embætti forseta 20. janúar.

Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af því að ógn stafi af TikTok vegna þeirra valda sem Kommúnistaflokkur Kína hefur yfir miðlinum.

Youtube stjarnan og áhrifavaldurinn Jimmy Donaldson, sem gengur undir nafninu MrBeast, er meðal þeirra sem hafa lýst yfir áhuga á því að kaupa starfsemi TikTok í Bandaríkjunum.

Í gær var svo greint frá því að Amazon hefði gert tilboð í miðilinn. Í frétt New York Times sagði að Amazon hefði skilað tilboði í TikTok inn til J.D Vance, varaforseta BAndaríkjanna og Howard Lutnick, viðskiptaráðherra. Haft var eftir heimildarmönnum að tilboðinu hefði ekki verið tekið sérstaklega alvarlega.

Donald Trump segir að vonir standi til að viðræður við kínversk yfirvöld muni áfram ganga vel, þótt þau séu ekki ánægð með nýja tolla Bandaríkjamanna.

Kínverskir eigendur miðilsins, Bytedance, hafa sagt hann ekki vera til sölu.

Í síðustu viku sagði Trump að til greina kæmi að lækka tolla gagnvart Kína ef þeir myndu fallast á að selja TikTok.

TikTok er einn vinsælasti samfélagsmiðill Bandaríkjanna með um 170 milljónir notenda.

Færsla Trumps á Truth Social.Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×