Íslenski boltinn

Frum­raun Gylfa í beinni í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson samdi við Víkinga á dögunum.
Gylfi Þór Sigurðsson samdi við Víkinga á dögunum. Vísir/Vilhelm

Víkingur og KR mætast í úrslitaleik Bose-bikarsins í fótbolta í kvöld. Töluverð eftirvænting er fyrir leiknum sem verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.

Víkingur freistar þess að vinna keppnina í annað skipti en um er að ræða 13. árið sem hún fer fram. Yfirleitt lýkur henni fyrir áramót en vegna Evrópuævintýris Víkinga var fallist á að fresta úrslitaleiknum fram á vorið.

Gera má ráð fyrir frumraun Gylfa Þórs Sigurðssonar í Víkingstreyjunni í keppnisleik og þá hafa KR-ingar spilað skemmtilegan sóknarbolta í vetur. KR-ingar geta unnið Bose-bikarinn í fjórða sinn.

Mikil viðhöfn verður í Víkinni þar sem leikurinn fer fram, utanumhaldið líkt og í Bestu deildar leik og ákveðið forskot á sæluna. Allur ágóði af miðasölu rennur til Píeta-samtakanna og Styrktarfélags krabbameinsveikra barna.

Þeir sem ekki komast á leik kvöldsins geta séð hann í Besta sætinu en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5 frá klukkan 18:50.

Keppni í Bestu deild karla hefst eftir rúma viku þegar Breiðablik og Afturelding mætast laugardaginn 5. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×