Íslenski boltinn

Fyrir­liði Vestra í tveggja mánaða bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elmar Atli Garðarsson er fyrirliði Vestra.
Elmar Atli Garðarsson er fyrirliði Vestra. Vísir/Hulda Margrét

Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra í Bestu deild karla í knattspyrnu, hefur verið dæmdur í tveggja mánaða bann vegna veðmálaþátttöku.

Á dögunum greindi Elmar Atli sjálfur frá því að hann hefði gerst sekur um að veðja á leiki hér á landi. Slíkt er með öllu bannað í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu sem og öðrum íþróttum.

Í færslu á Facebook greindi Elmar frá því að hann hafi veðjað á leiki í Bestu deild karla. Veðmálin tengdust þó ekki Vestra eða höfðu áhrif á liðið eða þau sem voru í baráttu við Ísfirðinga. Elmar segir að háar fjárhæðir hafi ekki verið í spilinu og hann hafi ekki haft hag af.

KSÍ hefur nú dæmt í málinu og hefur Elmar Atli verið dæmdur í tveggja mánaða bann.

„Elmar Atli Garðarsson skal sæta banni frá allri þátttöku í knattspyrnu á tímabilinu 18. mars 2025 til og með 18. maí 2025,“ segir í dómi KSÍ.

Dóminn má finna í heild sinni á vef Knattspyrnusambands Íslands.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×