Það er líka lagt til að sýslumanni verði heimilt að óska eftir nauðsynlegum upplýsingum frá ríkisskattstjóra í tengslum við eftirlit sýslumanns með einstaka málum vegna skráningarskyldrar heimagistingar. Frumvapsdrögin má lesa í samráðsgáttinni með því að smella hér.
AirBnB þrengi verulega að leigjendum
Samkvæmt núgildandi lögum er einstaklingi heimilt að leigja út tvær eignir undir skráningarskylda heimagistingu, það er lögheimili sitt og eina aðra fasteign í sinni eigu. Á þessu hyggst ríkisstjórnin gera þá breytingu að afmarka skráningarskylda heimagistingu við eina eign einstaklings innan þéttbýlis sem jafnframt er lögheimili hans. Þá verður heimilt eftir sem áður að leigja út aðra eign í hans eigu sem er utan þéttbýlis. Samanlagðar heildartekjur vegna útleigðu eignanna mega ekki fara yfir tvær milljónir króna á ári né útleigðar gistinætur yfir níutíu.
Mikið bar á orðræðu fulltrúa Samfylkingarinnar í garð skammtímaleiguhúsnæðis og þá sérstaklega þjónustu AirBnB í aðdraganda kosninga. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar var tekið fram að nauðsynlegt væri að ná stjórn á AirBnB og sambærilegri þjónustu sem liður í bráðaaðgerðum í húsnæðismálum.
Þá kom einnig fram í skýrslu sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kynnti í lok síðasta mánaðar að skammtímaleiga í gegnum AirBnB sé einn stór áhrifaþáttur í samdrætti á framboði húsnæðis í miðborg Reykjavíkur. Fimmta hver íbúð í miðbænum sé skráð á AirBnB og það þrengi verulega að leigjendum á langtímamarkaði.
Um helmingur skammtímaleigu leyfislaus
Í frumvarpsdrögunum kemur einnig fram, ásamt fyrrnefndum skilyrðum, að útgefin rekstrarleyfi til gististarfsemi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis verði tímabundin til fimm ára í senn en þau hafa hingað til verið ótímabundin.
Umrædd rekstrarleyfi sem þegar hafa verið gefin út munu halda gildi sínu í fimm ár frá gildistöku laganna. Að þeim tíma liðnum, það er 1. janúar 2031, munu umræddir rekstaraðilar þurfa að sækja um nýtt rekstrarleyfi sé ætlunin að halda áfram rekstri.
Í þeim tilgangi að efla eftirlit sýslumanns með skráningarskyldri heimagistingu er með frumvarpinu lagt til að sýslumaður fái heimild til að óska eftir nauðsynlegum upplýsingum hjá ríkisskattstjóra er lúta að tekjum og öðrum atriðum. Ekki er opnað á almenna gagnamiðlun milli sýslumanns og ríkisskattstjóra heldur munu upplýsingabeiðnir sýslumanns afmarkast við einstaka mál þar sem sýslumaður hefur uppi rökstuddan grun um að aðili sem stundar skráningarskylda heimagistingu hafi gerst brotlegur við lög.
Einnig kemur fram að þrátt fyrir að dregið hafi um 30 prósent úr leyfislausri skammtímaleigu undanfarin sjö ár áætli sýslumaður engu að síður að um helmingur af skammtímaleigu fari enn fram án skráningar eða tilskilinna leyfa. Ætlunin er að frumvarp þetta feli í sér ákveðinn fráfælingarmátt.