Upp­gjörið: Kefla­vík - Haukar 96-105 | Aftur sóttu Haukar sigur í Slátur­húsið

Siggeir Ævarsson skrifar
Diamond Alexis Battles var frábær í liði Hauka.
Diamond Alexis Battles var frábær í liði Hauka. Vísir/Diego

Topplið Hauka sótti Keflvíkinga heim í kvöld í Bónus-deild kvenna. Liðið mættust hér í Keflavík fyrir nokkrum dögum og þá fóru Haukar heim með eins stigs sigur í spennandi leik. Aftur fóru Haukar með sigur af hólmi en að þessu sinni var sigurinn stærri.

Keflvíkingar höfðu því harma að hefna en að sama skapi voru Haukar mættir til að láta alla vita að það er ekki af ástæðulausu sem liðið situr á toppi deildarinnar og hafði aðeins tapað þremur leikjum fyrir kvöldið í kvöld.

Haukar hófu leikinn af krafti og náðu í tvígang upp smá forskoti í 1. leikhluta en Keflvíkingar voru þó ekki á því að kasta leiknum frá sér strax á upphafsmínútunum en Haukar leiddu með fjórum eftir fyrsta leikhluta, 25-29.

Bæði lið voru að hitta mjög vel fyrir utan í fyrri hálfleik og voru bæði með nýtingu yfir 60 prósent í hálfleik. Ekki oft sem maður sér svona góða nýtingu og hvað þá hjá báðum liðum. Haukar náðu upp tveggja stafa forskoti og virtust ætla að hlaupa burt með leikinn en Keflavík lagaði stöðuna aftur fyrir hálfleik og staðan 55-61.

Haukar tóku enn eitt áhlaupið í þriðja leikhluta og héldu uppteknum hætti í góðri nýtingu en þær voru að skjóta 70 prósent fyrir utan þegar best lét, sem er einfaldlega galin tölfræði. Þær náðu að keyra muninn upp í tólf stig en þrjár körfur í röð frá Jasmine Dickey þýddu að aðeins munaði fjórum stigum fyrir lokaleikhlutann, 81-85.

Bæði lið tókust hart á í fjórða leikhlutanum. Ákafinn var keyrður í botn og minnti helst á leik í úrslitakeppninni. Jasmine Dickey setti þrist og jafnaði leikinn í 91-91 en Haukar settu þá sex stig í röð og það dugði til að slíta sig frá og sigla þessu heim í lokin. Ákveðinn losarabragur var á spilamennsku beggja liða síðustu sekúndur leiksins þegar ljóst var hvoru megin sigurinn hefði fallið. Lokatölur 96-105 og Haukar sýnda enn á ný af hverju þær eru sem stendur besta lið landsins.

Atvik leiksins

Þristurinn frá Dickey hér að ofan virtist ætla að snúa leiknum, en allt kom fyrir ekki.

Stjörnur og skúrkar

Jasmine Dickey keyrði sóknarleik Keflvíkinga áfram í kvöld, skorðai 36 stig og bætti við ellefu fráköstum. Þá átti Sara Rún Hinriksdóttir fínan leik, 19 stig frá henni og 100 prósent nýting í þremur þristum.

Keflvíkingar hefðu örugglega þegið meira framlag frá Thelmu Dís Ágústsdóttur sem skoraði eitt stig í kvöld.

Hjá Haukum voru þær Tinna Guðrún Alexandersdóttir, Diamond Battles og Lore Devos allar frábærar sóknarlega, með 23, 23 og 25 stig. Devos bætti við tólf fráköstum og Tinna setti fimm þrista í sjö skotum.

Dómararnir

Bjarki Þór Davíðsson, Sigurbaldur Frímannsson og Ingi Björn Jónsson dæmdu leikinn í kvöld og fórst það ágætlega úr hendi. Þeir misstu aðeins tökin á honum undir lokin en náðu þeim svo aftur og kláruðu leikinn með sæmd. Fín upphitun fyrir þá félaga fyrir hitann og ákafann sem verður boðið upp á í úrslitakeppninni.

Stemming og umgjörð

Það var ekki vel mætt í Keflavík í kvöld. Eflaust hafði færðin á Reykjanesbrautinni eitthvað um það að segja og mögulega líka þreyta í mannskapnum eftir Nettó-mótið. En þeir áhorfendur sem mættu létu í sér heyra og fengu hörkuleik á að horfa.

Viðtöl

Siggi Ingimundar: „Vorum linar í restina“

Sigurður Ingimundarson er þjálfari beggja liða KeflavíkurVísir/Hulda Margrét

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, var fáorður í leikslok en blaðamaður bauð honum að velja úr helstu klisjum eins og að hans lið hefði verið í erfiðri stöðu að elta allan leikinn. Hann tók blaðamann á orðinu og valdi alla helstu frasana.

„Þær bara eru betri en við eins og staðan er núna. Eru bara aðeins sterkari í allskonar. Við áttum góða spretti og góða kafla í leiknum en vorum linar í restina. Allavega eins og staðan er núna eru þær betri en það er nóg eftir.“

Þær eru nú samt ekki mikið betri, þið jafnið leikinn í 91-91 undir lokin, er það þessi frægi herslumunur sem vantar upp á?

„Það er lítil atriði sem við þurfum að bæta okkur í á hverjum degi.“

Jasmine Dickey fór mikinn í kvöld en að sama skapi skoraði Thelma Dís aðeins eitt stig. Vantar Keflvíkingum mögulega meira jafnvægi í sinn leik?

„Það væri betra. Það væri óskandi.“

Sigurður tók undir orð blaðamanns um að þessi ákafi væri væntanlega það sem koma skal í leikjum toppliðanna í A-hluta deildarinnar.

„Það held ég. Á köflum gæðakörfubolti hjá mörgum liðum og virkilega skemmtilegt að horfa á það.“

Hann sagðist þó ekki vera kominn svo langt að hugsa um hvaða áðurnefndu litlu hluti liðið þyrfti að bæta.

„Við erum nú ekki farnar að hugsa um það, við byrjum á því á morgun.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira