Skólinn hefur síðustu þrjú ár verið rekinn í húsnæði borgarinnar í Skógarhlíð. Um 400 börn eru í skólanum en hann er fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til 12 ára.
Foreldrar um 200 leikskólabarna í skólanum voru á fundinum hvattir til þess að sækja um fyrir börn sín í leikskólum Reykjavíkur. Umsóknarfrestur í leikskóla fyrir næsta vetur er til 3. mars. Svipaður fjöldi grunnskólabarna er í skólanum sem myndi flytjast í sinn hverfisskóla.
Skólinn var áður rekinn í Öskjuhlíð en var fluttur í Skógarhlíð árið 2022. Í frétt um flutninginn frá þeim tíma kemur fram að skólinn ætti að vera í Skógarhlíð tímabundið.
Kristín Kolbeinsdóttir, foreldri barns í skólanum og kennari, segir að á hverju ári hafi skólinn þurft að sækja um leyfi og undanþágu til að fá að vera áfram. Auk þess sé hann alveg sprunginn og ekki sé hægt að taka við fleiri börnum.
„Við höfum þurft að nota húsnæði frá Skátunum og einhverjar stofur hjá Veðurstofunni. Við fengum þetta húsnæði í Skógarhlíð með þeim vilyrðum að við fengjum framtíðarhúsnæði á næstu þremur árum. Nú eru þau liðin og ekkert í hendi og okkur hefur ekkert miðað áfram. Aftur sjáum við fram á að þurfa að loka. Þess vegna var haldinn þessi neyðarfundur,“ segir Kristín.
Fengu símtal frá borginni á fundinum
Hún segir að á meðan fundinum stóð hafi þau fengið símtal frá borginni og upplýsingar um að meirihlutinn hafi fundað um málið. Þau vilji tryggja áframhaldandi starfsemi hans en þó ekkert komið fram í símtalinu um hvernig ætti að gera það.

„Við ætlum ekki að láta að bjóða okkur þetta ástand nema það sé verið að vinna að því að finna okkur eitthvað varanlegt. Það var mikill baráttuhugur í fólki í gær og foreldrar ætla að standa saman í þessu. Það er mjög mikilvægt að þetta haldi áfram. Ég trúi ekki öðru en að það muni ganga upp,“ segir Kristín.
Hún hafi auk þess litla trú á því að það sé pláss fyrir 200 börn aukalega á biðlistum borgarinnar í leikskóla.
Mikilvægt að foreldrar hafi val um fjölbreytni
Kristín segir það hrikalega tilhugsun að skólinn loki. Í Hjallastefnunni sé boðið upp á kennsluaðferðir sem ekki eru í boði annars staðar. Foreldrar hafi markvisst valið að hafa börnin í þessum skóla.
„Þetta er umhverfi sem hentar vel, eins og fyrir minn strák sem er einhverfur. Ég sé hann ekki fyrir mér í hverfisskóla. Þetta er svo mikil uppbótarvinna. Við erum úti með stelpurnar á stuttermabolnum á rassaþotum að öskra og kasta grjóti og inni með strákunum að lesa, nudda hvern annan og tala um kærleika og vináttu. Það situr enginn við borð að læra, þau liggja á gólfinu eða í gluggakistunni. Þetta er bara öðruvísi aðferð og eitthvað sem fólk hefur valið fyrir börnin sín. Það er mjög mikilvægt að halda áfram að bjóða upp á þetta val í borginni, og fjölbreytileika,“ segir Kristín í samtali við fréttastofu.