Körfubolti

„Þetta er stærra en að vinna ein­hverja titla“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Martin Hermannsson mun segja barnabörnum sínum frá þessu kvöldi.
Martin Hermannsson mun segja barnabörnum sínum frá þessu kvöldi. vísir / anton brink

„Þetta er það sem þú lifir fyrir. Ástæðan fyrir því að þú ert í þessu. [Komast inn á EM] með mörgum af mínum bestu vinum, fyrir framan ættingja og vini. Ég mun lifa á þessu restina af ævinni, og við allir“ sagði Martin Hermannsson, stigahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í sigri gegn Tyrklandi sem tryggði Íslandi sæti á EM í sumar.

Martin hefur afrekað ýmislegt á sínum ferli, unnið fjölda titla og einstaklingsverðlaun hérlendis og erlendis, en ekkert toppar afrekin með íslenska landsliðinu.

„Þetta var þvílíkt gæsahúðarmóment. Þetta er stærra en að vinna einhverja titla.“

„Komin á þennan stall“

Laugardalshöll var smekkfull í kvöld og studdi strákana okkar til sigurs. Martin sagði einmitt eftir tapið gegn Ungverjum í síðasta leik að það væri skemmtilega að gera þetta svoleiðis, tryggja sætið á EM hér heima með smekkfulla höll.

„Fólk var mætt hérna áður en ég var mættur að hita upp. Þetta hefur ekki verið svona í körfuboltanum í gegnum tíðina, fólk hefur ekki verið að mæta einum og hálfum tíma fyrir leik til að horfa á landsliðið í körfubolta. Nú erum við bara komin á þennan stall, það er slegist um miða og uppselt.“

Fagnaðarlæti fyrir fullu húsi í leikslok.vísir / anton

„Sýna barnabörnunum að afi hafi einu sinni verið góður“

„Ég veit ekki alveg hvernig á að lýsa þessu, ég er bara svo ógeðslega stoltur af liðinu og okkur öllum að hafa klárað þetta. Þetta er leikur sem við munum horfa á, aftur og aftur, sýna barnabörnunum að afi hafi einu sinni verið góður sko,“ sagði Martin einnig kátur í bragði.

Heim að sofa

Liðsfélagarnir voru byrjaðir að toga Martin inn í klefa þegar viðtalið var tekið, þá var ekki úr vegi að spyrja hvernig strákarnir ætluðu að fagna sigrinum.

„Heim að sofa held ég bara“ sagði Martin og skellti upp úr.

„Það verður eitthvað. Ég veit það ekki. Til í allt, það er svolítið mottóið í kvöld“ sagði Martin að lokum.

Martin skoraði 23 stig í kvöld og mun væntanlega leggjast sáttur á koddann.vísir / anton brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×