Körfubolti

Gætu tryggt EM sætið í kvöld: „Skrítin staða að vera í“

Aron Guðmundsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson í leik með íslenska landsliðinu
Ægir Þór Steinarsson í leik með íslenska landsliðinu Vísir/Hulda Margrét

Ægir Þór Steinars­son, leik­maður ís­lenska lands­liðsins í körfu­bolta segir mikilvægt fyrir liðið að ein­beita sér að því sem að það getur stjórnað fyrir mikilvægan leik gegn Ung­verja­landi í undan­keppni EM í kvöld. Leik þar sem að Ís­land getur tryggt sér far­miða á EM.

Sigur í kvöld gegn Ung­verja­landi úti í Szom­b­at­hely í næstsíðustu um­ferð undan­keppninnar tryggir ís­lenska liðinu far­seðilinn á EM í sumar. Þá dugar ís­lenska liðinu einnig tap með fjögurra stiga mun eða minna til að tryggja EM sætið þar sem að liðið vann fimm stiga sigur á Ung­verjum hér heima.

Fari illa í kvöld og liðið tapi með fjórum stigum eða meira er þó ekki öll nótt úti enn. Sigur gegn Tyrk­landi hér heima á sunnu­dag myndi tryggja EM far­seðilinn og jafn­vel tap fari svo að Ung­verjar tapi gegn Ítölum í loka­leik sínum.

Ægir Þór, einn af reynslu­boltunum í ís­lenska lands­liðinu, segir þetta skrítna stöðu að vera í.

„Já þetta er alltaf skrítin staða að vera í,“ segir Ægir í samtali við Vísi. „Reyna að blokkera ein­hverja hluti sem gætu mögu­lega og hugsan­lega gerst. En það sem að ég tel gott fyrir okkur er að við höfum reynslu af því að vera í svona aðstæðum. Höfum spilað marga leiki þar sem er ein­hver munur og maður þarf að vinna og eitt­hvað svo­leiðis. Það er það sem við erum að ein­beita okkur mikið að í okkar leik. Að stjórna því sem að við getum stjórnað. Mæta í þennan leik til þess að vinna.

Það er gríðar­leg til­hlökkun fyrir þessu verk­efni. Loksins komið að þessu. Við erum búnir að undir­búa okkur vel í flottum aðstæðum í að­draganda þessa verk­efnis, fyrst í Berlín og svo hér í Ung­verja­landi og erum því til­búnir að mæta á gólfið og byrja að spila.“

Ís­land hafði betur gegn Ung­verjum fyrr í undan­keppninni en um er að ræða and­stæðing sem ber að varast.

„Þeir eru með mikil gæði, hafa yfir að skipa hæfi­leikaríkum leik­mönnum og þeirra bestu menn eru öflugir í sókninni, menn sem við verðum að hafa góðar gætur á. En eins og í öllum liðum sem við erum að mæta þá þurfum við að spila gríðar­lega góða vörn og vera með háa pressu á þeim í þessar fjörutíu mínútur til þess að vinna.“

Góðu fréttirnar fyrir ís­lenska lands­liðið eru þá þær að lands­liðs­fyrir­liðinn Martin Her­manns­son er mættur aftur eftir að hafa misst af undan­förnum lands­leikjum vegna meiðsla. Koma hans gerir mikið fyrir ís­lenska lands­liðið.

„Heldur betur. Þá erum við með hópinn kláran. Við höfum spilað án hans og með honum. Það er sama með hann og áður. Hann er snöggur að koma sér inn í hlutina, er mikill leið­togi. Það er bara gríðar­lega góð viðbót að fá hann aftur inn í liðið.“

Leikur Ungverjalands og Íslands í undankeppni EM í körfubolta hefst klukkan fimm á íslenskum tíma. Leiknum verður lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×