„Ég vildi hafa meiri sannleik hjá Trump-liðum,“ sagði Selenskí þegar hann ræddi við blaðamenn í Kænugarði í dag.
Hann sagði meðal annars að hann bæri mikla virðingu fyrir Trump, sem leiðtogi þjóðar sem Selenskí bæri einnig mikla virðingu fyrir og sem hefði ávallt staðið við bak Úkraínumanna, virtist sem Trump fengi mikið af röngum upplýsingum og áróðri frá Rússum.
Selenskí sagði að útbreiðsla áróðurs frá Rússum hjálpaði eingöngu Pútín við að komast úr einangrun hans á alþjóðasviðinu.
„Ég tel að þess vegna séu Pútín og Rússar að fagna, því núna er umræðan eins og þeir séu fórnarlömbin," sagði hann.
Einnig talaði hann um ummæli Trumps varðandi hernaðaraðstoð handa Úkraínumönnum. Bandaríkjamenn hefðu ekki veitt Úkraínu 500 milljarða dala í hernaðaraðstoð. Í heildina væri kostnaðurinn tengdur hernaði vegna stríðsins um 320 milljarðar. Þar af hefðu 120 komið frá úkraínskum skattgreiðendum og um tvö hundruð frá Bandaríkjunum og Evrópu.
Sjá einnig: Setja fúlgur fjár í herinn - Segir ástandið verra en í kalda stríðinu
Frá Bandaríkjunum hefðu Úkraínumenn fengið um 67 milljarða í hernaðaraðstoð, að miklu leyti í formi hergagna, og 31,5 milljarð í fjárhagsaðstoð.
Selenskí sagði að ef einhver legði til að Úkraínumenn endurgreiddu 500 milljarða til Bandaríkjanna í formi auðlinda úr jörðu, væri það ekki uppástunga sem taka ætti alvarlega.
Selenskí sagði einnig að Úkraínumenn vildu og þyrftu að starfa með ráðamönnum í Washington DC. Þeir væru tilbúnir til viðræðna og bæði Úkraínumenn og Bandaríkjamenn þyrftu góðar og varanlegar öryggisráðstafanir. Þær þyrftu að koma frá Vesturlöndum.
Hann sagði Rússum ekki treystandi fyrir slíkum ráðstöfunum og ef friðarviðræður milli Úkraínumanna og Rússa myndu hefjast yrði rætt um það hvað Rússar skulduðu Úkraínumönnum vegna innrásarinnar.
Úkraínumenn beri ábyrgð á innrás Rússa
Á blaðamannafundi í gærkvöldi gaf Trump til kynna að hann væri þeirrar skoðunar að Úkraínumenn hefðu ekki átt að hefja stríðið við Rússa.
Þetta var eftir að hann var spurður hvort hann hefði einhver skilaboð til Úkraínumanna, sem teldu sig hafa verið skilda út undan þar sem þeir hefðu ekki fengið sæti við borðið í viðræðum Bandaríkjamanna við Rússa í Sádi-Arabíu á dögunum.
Sjá einnig: Halda frekari viðræður um „pirrandi atriði“ og samskipti ríkjanna
Þar sagði Trump meðal annars að hann væri vonsvikinn með viðbrögðin. Úkraínumenn hefðu haft þrjú ár til að binda enda á stríðið. Auðvelt hefði verið að binda enda á stríðið fyrir löngu síðan, án þess að það hefði kostað Úkraínumenn „mikið landsvæði“ og mögulega ekkert mannfall.
Hann sagði að Úkraínumenn hefðu „valið“ að gera það ekki.
„Þið hefðuð átt að binda enda á það fyrir þremur árum. Þið hefðuð aldrei átt að hefja það. Þið hefðuð getað samið.“
Á fundinum sagði Trump einnig að Joe Biden, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefði ekki haft hugmynd um hvað hann ætti að gera. Hann hefði verið „aumkunarverður“ og „sorglegur“.
Trump hélt því einnig fram að Rússar, sem hafa nánast linnulaust látið sprengjur rigna yfir Úkraínu frá því innrásin hófst, hefðu getuna til að jafna margar úkraínskar borgir við jörðu. Þar á meðal Kænugarð.
Rússar kysu hins vegar að gera það ekki. Þeir vildu það ekki.
Gagnrýndi Selenskí og lofaði Pútín
Trump gagnrýndi Selenskí og laug því að einungis fjögur prósent úkraínsku þjóðarinnar styddu hann og kallaði aftur eftir kosningum í Úkraínu, sem er eitthvað sem Rússar hafa einnig gert ítrekað.
Trump var spurður frekar út í ákall sitt eftir kosningum í Úkraínu, sem Úkraínumenn segja að stjórnarskrá ríkisins leyfi ekki á stríðstímum og yrði gífurlega erfitt í framkvæmd með tilliti til átakanna, að stór hluti Úkraínu hafi verið hernuminn og að milljónir hafi flúið land.
Trump gagnrýndi Selenskí, þó hann sagði að honum væri vel við úkraínska forsetann, á persónulegum nótum, en það skipti ekki máli. Hann hugsaði um að klára verkið.
„Þú ert með leiðtoga þarna sem hafa leyft stríði að geisa, stríði sem hefði aldrei átt að hefjast, jafnvel án Bandaríkjanna,“ sagði Trump. Hann hélt áfram að gagnrýna Biden og sagði að stríðið hefði aldrei hafist ef hann hefði verið endurkjörinn á sínum tíma.
„Ég talaði um þetta við Pútín,“ sagði Trump og átti hann við sitt fyrra kjörtímabil.
„Úkraína var sko sjáaldur augna hans, ég skal segja ykkur það, en það var ekki séns að hann færi þar inn og ég sagði honum: „Þú skalt ekki fara þarna inn, ekki fara þarna inn.“ Hann skildi það.“
Þá talaði Trump um að átökin í Úkraínu gætu undið upp á sig og orðið að þriðju heimsstyrjöldinni.
Rússar bera ábyrgð
Að halda því fram að Úkraínumenn beri ábyrgð á innrás Rússa í Úkraínu er einfaldlega rangt.
Í stuttu máli sagt þá réðust Rússar fyrst inn í Úkraínu árið 2014 og innlimuðu Krímskaga ólöglega. Þá studdu þá aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu með skrið- og bryndrekum, stórskotaliðsvopnum, peningum og öðrum leiðum sama ár.
Þegar úkraínski herinn var nærri því að sigra aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu sendi Pútín rússneska herinn inn í Úkraínu, til aðstoðar aðskilnaðarsinnunum og sneri þannig við stöðunni.
Það var svo í febrúar 2022 sem rússneskir hermenn streymdu yfir landamæri Úkraínu úr ýmsum áttum og sérsveitarmenn og málaliðar voru sendir til Kænugarðs til að reyna að ráða Selenskí af dögum. Allsherjarinnrás hófst og hafa gífurlega umfangsmikil átök staðið yfir síðan þá.
Sjá einnig: Pyntingar á pyntingar ofan
Fyrir innrásina krafðist Pútín þess að Atlantshafsbandalagið hörfaði alfarið frá Austur-Evrópu og að Úkraína myndi afsala umfangsmiklu landsvæði, svo gott sem leggja niður her sinn og lýsa yfir ævarandi hlutleysi.
Eftir innrás Rússa bárust fljótt fregnir af umfangsmiklum ódæðum rússneskra hermanna í Úkraínu og þá kannski sérstaklega í Bucha, þar sem hundruð óbreyttra borgara voru myrtir af hermönnum. Síðan þá hafa ítrekað borist fregnir af nauðgunum, pyntingum og morðum á óbreyttum borgurum á hernumdum svæðum Úkraínu.