Skoðun

Sann­leikurinn um undir­búning útlendingafrumvarpsins

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Það kemur núverandi ríkisstjórn eflaust á óvart hversu miklar kröfur eru gerðar til valdhafanna. Það er eðlilegt og þess vegna þykir mér bagalegt þegar ráðherrar fara með ósannindi um störf forvera sinna. Í grein núverandi dómsmálaráðherra sem birtist á Vísi í gær kemur fram að engin vinna hafi átt sér stað við undirbúning frumvarps um afturköllun á alþjóðlegri vernd einstaklinga sem hafa gerst sekir um alvarleg brot. Þetta er einfaldlega rangt.

Þegar ég gegndi embætti dómsmálaráðherra var þetta frumvarp í virkri vinnslu og á þingmálaskrá fyrir haustþingið. Ég, aðstoðarmenn mínir, og þá sérstaklega sérfræðingar ráðuneytisins höfðu lagt í mikla vinnu við undirbúning þess. Þegar ríkisstjórnin féll var eðlilegt að málið færi ekki lengra á þeim tímapunkti, en að halda því fram að engin vinna hafi átt sér stað er ekki aðeins ósatt heldur virðingarleysi gagnvart þeim sem unnu að málinu af fagmennsku.

Það er ómaklegt og óábyrgt að nýr ráðherra reyni að fegra eigin störf með því að gera lítið úr vinnu annarra - gera sjálfa sig stærri með því að smætta aðra og það með röngum staðhæfingum. Hvort sem um er að ræða vísvitandi rangfærslur eða hreina vanþekkingu, þá ætti ráðherra að leiðrétta þessar tilefnislausu rangfærslur tafarlaust.

Að því sögðu fagna ég því að dómsmálaráðherra hyggist leggja frumvarpið fram eins og ég hafði sjálf ráðgert.

Í grein hennar talar hún einnig um að hún ætli að samræma reglur í útlendingamálum við norrænu nágrannaríkin. Því er eðlilegt að spyrja, hvers vegna hyggst dómsmálaráðherra þá ekki leggja fram frumvarp um lokuð brottfararúrræði? Það mál var einnig á þingmálaskrá minni, hafði verið vel undirbúið í ráðuneytinu, og er í samræmi við framkvæmd á Norðurlöndum og raunar Schengen svæðinu öllu.

Það er holur hljómur í málflutningi dómsmálaráðherra, enda er auðvitað alltaf auðveldara að endurtaka orðin „samræma við nágrannalönd“ heldur en að fylgja þeim eftir með raunverulegum aðgerðum.

Höfundur er fyrrum dómsmálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Hug­takinu al­manna­heill snúið á haus

Björg Eva Erlendsdóttir,Þorgerður María Þorbjarnardóttir,Árni Finnsson ,Snæbjörn Guðmundsson,Elvar Örn Friðriksso,Friðleifur E. Guðmundsson,Snorri Hallgrímsson,Sigþrúður Jónsdóttir skrifar

Skoðun

Græn borg

Auður Elva Kjartansdóttir skrifar

Sjá meira


×