Erlent

Sprengju­dróni flaug á stein­hvelfingu Tsjern­obyl-versins

Kjartan Kjartansson skrifar
Svöðusár í steinhvelfingunni utan um kjarnaofn fjögur í Tsjernobyl eftir að dróna var flogið á hana í nótt.
Svöðusár í steinhvelfingunni utan um kjarnaofn fjögur í Tsjernobyl eftir að dróna var flogið á hana í nótt. Alþjóðakjarnorkustofnunin

Skemmdir urðu á steinhvelfingu utan um Tsjernobyl-kjarnorkuverið í Úkraínu og eldur kviknaði eftir að dróni flaug á hana í nótt. Forseti Úkraínu fullyrðir að dróninn hafi verið rússneskur og að hann hafi verið öflugan sprengiodd.

Alþjóðakjarnorkustofnunin segir að dróninn hafi flogið á steinhvelfinguna um kjarnaofna þess rétt fyrir klukkan tvö að staðartíma í nótt. Ekkert bendi til þess að innra byrði hvelfingarinnar hafi brostið og aukin geislun hefur ekki mælst í kjölfarið.

Rússar hafa ekkert gefið út um málið. AP-fréttastofan segir ekki mögulega að sannreyna fullyrðingar Volodýmýrs Selenskíj, forseta Úkraína, um að Rússar bæru ábyrgð. Úkraínumenn segjast ætla að afhenda fulltrúum Bandaríkjastjórnar upplýsingar um árásina á kjarnorkuverið á alþjóðlegri öryggisráðstefnu í München í Þýskalandi í dag.

Steinsteypuhvelfingin sem dróninn flaug á var reist utan um kjarnaofn númer fjögur sem sprakk í versta kjarnorkuslysi sögunnar árið 1986. Hún á að koma í veg fyrir frekari geislunarmengun frá kjarnaofninum.

Rafael Rossi, forstjóri Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar, sagði á samfélagmiðli að árásin á Tsjernobyl og vaxandi hernaðarumsvif í kringum kjarnorkuverið í Zaporizhzhia í Úkraínu undirstrikuðu viðvarandi kjarnorkuhættu. Mikill viðbúnaður væri hjá stofnuninni vegna hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×