Upp­gjörið: Víkingur - Panathinaikos 2-1 | Ó­trú­legar senur á köldu Evrópukvöldi í Helsinki

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Víkingar eru í stórfínni stöðu fyrir seinni leikinn.
Víkingar eru í stórfínni stöðu fyrir seinni leikinn. EPA-EFE/KIMMO BRANDT

Víkingur vann gríðarsterkan 2-1 sigur gegn Panathinaikos í fyrri umspilsleik liðanna. Davíð Örn skoraði sitt fyrsta Evrópumark og varamaðurinn Matthías Vilhjálmsson bætti svo við fyrir Víkinga. Gestirnir minnkuðu muninn af vítapunktinum undir blálokin. Seinni leikur liðanna fer fram á heimavelli Panathinaikos í Grikklandi eftir viku, sigurvegari einvígisins heldur áfram í sextán liða úrslit Sambandsdeildarinnar.

Undirbúningsvinnan bar árangur

Víkingar höfðu undirbúið sig fyrir þennan leik svo mánuðum skipti. Frá því í desember hefur öll einbeiting verið á þessu einvígi, allar æfingar og allir leikir lagðir upp með Panathinaikos í huga. Víkingur hefur jafnvel spilað leikmönnum án leyfis, og étið sektina sem því fylgir, svo liðið gæti verið sem best búið.

Öll sú undirbúningsvinna bar árangur í dag. Víkingar voru gríðarlega vel skipulagðir í sinni þriggja/fimm manna varnarlínu, lögðust lágt og virtust lesa allt sem gestirnir ætluðu að gera. Sóknarlega var gríðarlegur hraði í skyndisóknum og löngum boltum mikið beitt.

Forystan tekin eftir þrettán mínútur

Eftir eina slíka sendingu, langan bolta upp í horn, vann Ari Sigurpálsson aukaspyrnu við endalínuna.

Daníel Hafsteinsson tók spyrnuna og markmaðurinn kýldi burt, en Tarik Ibrahimagic var fljótur að koma boltanum aftur inn í teiginn. Átti skot sem fór í Aron Elís og af honum skoppaði boltinn lengst upp í loft.

Markmaðurinn kom aftur út úr markinu með hnefann krepptan en Erlingur Agnarson truflaði hann og boltinn datt fyrir Davíð Örn Atlason sem skilaði honum í markið.

Fyrsta Evrópumark Davíðs Arnar má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Panathinaikos missti tvo menn í meiðsli

Skömmu eftir mark Víkinga meiddist fyrirliði Panathinaikos, Tasos Bakasetas, og þurfti að fara af velli. Aðeins fimmtán mínútum síðar meiddist miðvörðurinn Erik Palmer-Brown einnig.

Panathinaikos neyddist því til að gera tvær breytingar á sínu liði í fyrri hálfleik, sem var annars fremur tíðindalaus. Víkingar vörðu forystuna vel og Panathinaikos tókst ekki að finna opnanir.

Breytt Víkingslið í seinni hálfleik

Jón Guðni Fjóluson leysti Oliver Ekroth af í hjarta varnarinnar í hálfleik. Aron Elís Þrándarson fór svo út af snemma í seinni hálfleik fyrir Matthías Vilhjálmsson.

Matthías Vilhjálmsson og Jón Guðni Fjóluson komu inn á.EPA-EFE/KIMMO BRANDT

Varamaðurinn skoraði

Varamaðurinn Matthías Vilhjálmsson skoraði annað mark Víkinga aðeins fimm mínútum eftir að hann kom inn á. Erlingur Agnarsson átti þá skot, sem fór af varnarmanni, og boltinn skoppaði af slánni út í teiginn. Matthías var fyrstur í frákastið og kom boltanum í netið.

Mark Matthíasar má sjá í spilaranum hér fyrir neðan

Deyfð yfir mönnum eftir markið

Líkt og í fyrri hálfleik gerðist fremur fátt eftir mark Víkinga, alveg þar til undir blálokin.

Panathinaikos gaf þá töluvert í leit sína að marki til að minnka muninn. Liðið hafði virkað fremur áhugalaust en lagði meira á sig síðustu mínúturnar.

Víkingar voru stálheppnir í eitt skipti, þegar lúmskt skot frá Tete small á samskeytunum.

Skömmu síðar voru þeir hins vegar ekki eins heppnir.

Dómarinn dæmdi þá vítaspyrnu á Víkinga, fyrir brot inni í teignum þegar gestirnir tóku hornspyrnu. Fotis Ioannidissteig á punktinn og skaut föstu skoti alveg út við stöng. Ingvar fór í rétt horn en náði ekki til boltans.

Niðurstaðan varð því 2-1 Víkingssigur, en ekki tveggja marka sigur eins og stefndi lengi í. Liðið er þrátt fyrir það í frábærri stöðu og gæti í næstu viku tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.

Næsti leikur

Liðin mætast aftur eftir viku, fimmtudaginn 20. febrúar. Sá leikur fer fram í Grikklandi, á heimavelli Panathinaikos.

Sigurvegari einvígisins mætir svo austurríska liðinu Rapid Vienna eða ítalska liðinu Fiorentina í sextán liða úrslitum, sem verða spiluð 6. og 13. mars.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira