Innlent

Hefja form­legar við­ræður um meirihlutastamstarf í borginni

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Oddvitar flokkanna fimm við Tjörnina.
Oddvitar flokkanna fimm við Tjörnina. aðsend

Fimm stjórnmálaflokkar hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um samstarf í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, sendir fyrir hönd oddvita VG, Sósíalista, Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins. Ekkert hefur verið rætt um það enn hver yrði mögulegt borgarstjóraefni.

„Fimm flokkar í borgarstjórn Reykjavíkur hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um samstarf á nýjum grunni. Markmið okkar er að setja velferð og lífskjör allra Reykvíkinga í forgrunn.

Við ætlum að vanda vel til verka og munum upplýsa um gang mála eftir því sem vinnan þróast,“ segir í tilkynningu. 

Undir tilkynninguna rita Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokks Íslands, Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar. Tekið er sérstaklega fram að röð nafna undirritaðra sé „slembivalin“.

Líkt og kunnugt er sleit Einar Þorsteinsson borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins meirihlutasamstarfi Framsóknar, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata síðastliðið föstudagskvöld. Þá lá í loftinu að Einar myndi hefja viðræður við Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins um myndun nýs meirihluta. Sá möguleiki var þó fljótlega úr sögunni þegar Flokkur fólksins lýsti því yfir strax á laugardag að flokkurinn myndi ekki taka þátt í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum.

Líf Magneudóttir var í viðtali í beinni útsendingu í fréttum Bylgjunnar klukkan þrjú þar sem hún sagði óformlegar viðræður flokkanna hafa leitt í ljós að þeir eigi marga sameiginlega samstarfsfleti. „Við göngum í takt í stóru málunum þannig að það er það sem að við höfum verið að þreyfa á núna í gær og í fyrradag. Þannig við viljum láta á það reyna hvort að við getum ekki búið til öflugan samstarfsflöt og dregið þá fram verkefni sem eru í þágu borgarbúa,“ segir Líf.

Núna hefjist vinna við að greina verkefnin, draga upp málaflokkana og hverju flokkarnir vilji breyta í þágu borgarbúa. Hún segir erfitt að segja til um hve langan tíma oddvitarnir muni taka sér í viðræðurnar.

„En við biðjum að minnsta kosti um smá frið á meðan við erum að leggja þetta fyrir framan okkur og lista upp verkefni. Við ætlum að heyra í fólki líka þannig þetta allt hefur sinn tíma og verður að fá þann tíma sem þetta þarf,“ segir Líf.

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×