Jón Atli Benediktsson, sem hefur sinnt embættinu í tíu ár, hefur ákveðið að láta af starfinu.
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Magnús Karl Magnússon, læknir og prófessor við HÍ, greindu frá því í október síðastliðnum að þau ætluðu að sækja um.
Þá bættist Kolbrún Þ. Pálsdóttir, sviðsforseti og dósent við Menntavísindasvið, í hóp umsækjenda í desember.
Björn Þorsteinsson, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild, tilkynnti svo um framboð á samfélagsmiðlum 10. janúar og Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringarfræðingur og aðstoðarrektor vísinda við HÍ, í gær.
„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti rektors Háskóla Íslands. Ákvörðunin er tekin að vandlega athuguðu máli. Ég hef trú á því að ég hafi margt til að bera sem reynst geti vel í starfi rektors á næstu árum. Ég hef víðtæka reynslu af kennslu, rannsóknum og stjórnun innan Háskólans og hef brennandi áhuga á hlutverki hans í samfélaginu,“ sagði Björn á Facebook.
„Ég tel mig búa yfir ágætis reynslu til að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni sem starfinu fylgja. Hins vegar er ég fullkomlega reynslulaus þegar kemur að kosningabaráttu, en hlakka til að takast á við óvissuna næstu vikurnar. Ég þigg með þökkum góð ráð og stuðning frá mér reynslumeira fólki á þessu sviði og þeim sem eru tilbúnir að styðja mig í þessu ferli,“ sagði Ingibjörg á sama miðli.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skipar háskólarektor til fimm ára samkvæmt tilefningu háskólaráðs. Tilnefning háskólaráðs fer fram að undangengnum kosningum í háskólanum en þar hafa atkvæðarétt skipaðir eða ráðnir starfsmenn HÍ, akademískir starfsmenn samstarfsstofnana HÍ og allir skráðir stúdentar við skólann.
Atkvæði starfsmanna nema 70 prósentum og stúdenta 30 prósentum.
Samkvæmt reglum skal kjördagur vera sem næst 5. mars og kjörfundur standa í þrjá sólarhringa. Kosið er rafrænt.