Stígur Diljan Þórðarson, sem kom aftur heim til Víkings í vetur frá ítalska félaginu Triestina, er ekki kominn með félagaskipti og því ekki löglegur með Víkingum á Reykjavíkurmótinu. Þetta er þekkt vandamál hjá þátttökuliðum mótsins en félagaskiptaglugginn opnast ekki fyrr en 5. febrúar og er þá opinn í tólf vikur.
Engu að síður hefur hann nú spilað þrjá leiki með Víkingum á Reykjavíkurmótinu, nú síðast í dag í 3-2 sigri gegn Leikni, samkvæmt Elvari Geir Magnússyni ritstjóra Fótbolta.net.

Það þýðir að Víkingum verður dæmt 3-0 tap í leiknum, rétt eins og í síðasta leik gegn Fjölni. Liðið tapaði 5-2 gegn KR og því voru þau úrslit látin standa þrátt fyrir að Stígur Diljan spilaði.
Vegna leikjanna við Fjölni og KR voru Víkingar sektaðir um 60.000 krónur í hvort skipti, og má ætla að þeir verði sektaðir um 60.000 krónur til viðbótar vegna leiksins í dag. Það að láta Stíg Diljan spila á mótinu mun því samtals kosta félagið 180.000 krónur.
Stórt tap KR sem spilar til úrslita
Í öðrum leikjum dagsins vann ÍR 5-0 stórsigur gegn KR, í A-riðlinum sem Víkingur og Leiknir spila einnig í, en KR hafði þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins og þar með úrslitaleik.
Í B-riðli gerðu Fram og Þróttur 2-2 jafntefli. Egill Otti Vilhjálmsson og Már Ægisson skoruðu mörk Fram sem missti Fred af velli með rautt spjald á 30. mínútu. Benóný Haraldsson jafnaði meti í 1-1 á 38. mínútu og Hlynur Þórhallsson jafnaði meti ní 2-2 á 71. mínútu. Þróttur endar því með fjögur stig en Fram eitt.
Fylkir og Valur mætast í lokaleik B-riðils í kvöld og getur Fylkir með sigri náð efsta sætinu af Valsmönnum sem annars mæta KR í úrslitaleik mótsins.