Innlent

Svarar gagn­rýni á að Lista­háskólinn úti­loki á­kveðna hópa

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Berglind Erna t.v. segir Listaháskóla Íslands ekki geta stært sig af því að bjóða upp á listnám. Kristín Eysteinsdóttir t.h. tók við sem rektor skólans 2023.
Berglind Erna t.v. segir Listaháskóla Íslands ekki geta stært sig af því að bjóða upp á listnám. Kristín Eysteinsdóttir t.h. tók við sem rektor skólans 2023. Vísir/Vilhelm/aðsend

Yfirkennari í Myndlistarskólanum í Reykjavík segir Listaháskóla Íslands útiloka fólk með þroskahömlun um leið og hann stærir sig af því að bjóða öll velkomin. Rektor LHÍ segir nemendur með þroskahömlun svo sannarlega geta komist inn í skólann og stór skref hafi verið stigin í átt að aukinni inngildingu með nýrri stefnu.

Berglind Erna Tryggvadóttir, myndlistarkona og yfirkennari við deild fyrir nemendur með þroskahömlun í Myndlistaskólanum í Reykjavík, skrifar hugvekju á Facebook-hópnum Menningarátökunum um listnám fyrir öll og villandi auglýsingar.

Hún segist síðustu daga hafa verið hugsi yfir auglýsingum frá Listaháskóla Íslands þar sem skólinn býður „listnám fyrir ÖLL“ eftir að hafa fellt niður skólagjöld. Niðurfelling skólagjalda sé sannarlega stórt skref, en „það er þó langt því frá að vera sannleikanum samkvæmt að öll séu velkomin til náms þar,“ skrifar Berglind.

Berglind segist tala af reynslu eftir að hafa kennt fólki með þroskahömlun og hún þekki þar að auki töluvert af flottu listafólki með þroskahömlun. 

„Mörg hafa sótt um í LHÍ og það oftar en einu sinni en aldrei komist að,“ skrifar hún.

Skólinn eigi langt í land

Kennurum framhaldsskóla var í vikunni boðið í Listaháskólanum á kynningu um umsóknarferli og inngildingarstefna skólans. Berglind segir ljóst, eftir spjall við inngildingarfulltrúa skólans og nokkra deildarstjóra og starfsmenn, að skólinn eigi langa vegferð fyrir höndum.

„Inngildingarfulltrúinn þarf á miklum liðsstyrk að halda svo eitthvað gerist í skólanum varðandi inngildingu fólks með þroskahömlun,“ skrifar hún. Fyrsta skrefið gæti verið að gera umsóknarvef skólans aðgengilegan fyrir öllum með því að hafa hann á auðlesnu máli.

Auglýsing LHÍ nema búið er að eiga við hana og bæta „fyrir sum“ inn á hana.

Auðlesið mál er meira en bara einfaldur texti. Það er markviss miðlunarleið, bæði í orðanotkun og uppsetningu, sem nýtist þeim sem eiga erfitt með að lesa texta, til dæmis fólki með þroskahömlun, fólki sem er lesblint eða þeim sem eru að læra íslensku.

Berglind segir fólk sem hún ræddi við hafa verið misáhugasamt um málefnið, „sum mjög en alls ekki öll.“ 

Öll framvinda strandi á skriffinsku

„Það virðist vera sem svo að öll framvinda varðandi þennan málaflokk innan skólans stranda einhvers staðar á óræðum stað skriffinsku og hræðslu sem enginn kann nákvæm skil á,“ skrifar Berglind í færslunni.

Hún segir að sér vitandi hafi lítið sem ekkert markvisst samráð hafa átt sér stað við hagsmunasamtök þessa hóps. Það sé í hæsta máta undarlegt ætli skólinn að leggja svona mikið upp úr fjölbreytileika og inngildingu. 

„Ættu einstaklingar með þroskahömlun ekki einmitt að vera sérfræðingarnir sem leitað er til þegar fólk sem er ekki með þroskahömlun veit ekki hvert það á að snúa sér í málum sem þessum?“ spyr hún í færslunni.

Fólk með þroskahömlun hafi verið til jafn lengi og annað fólk

Eitt af þremur meginatriðum í nýrri stefnu Listaháskólans er að nám í listum eigi að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins. Berglind segir erfitt að sjá hvernig það sé hægt þegar einn af jaðarsettari hópum samfélagsins hafi ekki færi á að sækja nám þar.

„Það er ekki eins og fólk með þroskahömlun sé eitthvað nýtt af nálinni, það hefur verið til alveg jafn lengi og annað fólk. Það þarf kannski að mæta því á annan hátt en ferkantað kerfi skólans/samfélagsins býður upp á eins og er, kerfi sem ekki var hannað með inngildingu í huga,“ skrifar Berglind.

Hún veltir fyrir sér hvort Listaháskólinn ætti ekki einmitt að vera vettvangur fyrir nýsköpun á því sviði.

Þegar hafi töluvert af menntastofnunum tekið af skarið; framhaldsskólanám fyrir fólk með þroskahömlun sé aðgengilegt í mörgum framhaldsskólum, Myndlistarskólinn í Reykjavík sé með diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun og Háskóli Íslands bjóði upp á námsbraut fyrir fólk með þroskahömlun.

Rós í hnappagat sem eigi ekki rétt á sér

Það að LHÍ fari af stað með auglýsingaherferð undir yfirskriftinni LISTNÁM FYRIR ÖLL sé að mati Berglindar orðum aukið, „rós í hnappagat sem á ekki rétt á sér.“ 

„Það er endalaust hægt að skýla sér bakvið reglur um stúdentspróf (þó þekki ég persónulega fleiri en tvo og fleiri en fjóra einstaklinga sem að hafa komist inn í skólann á undanþágu, án stúdentprófs. Þeir voru reyndar ekki með þroskahömlun) og vel hægt að moða í háskólalögum fram og til baka, árum saman án þess að nokkuð gerist,“ skrifar Berglind.

„Til þess að eitthvað gerist þarf bara að taka af skarið, gera eitthvað, byrja einhvers staðar. Annars mun Listaháskóli Íslands aldrei geta sagt með sanni að þar sé boðið upp á nám fyrir öll,“ skrifar hún síðan. 

Þá bendir Berglind stjórnendum skólans og inngildingarfulltrúa hans að hafa samband við Átak, félag fólks með þroskahömlun þar sem hægt væri að ráðfæra sig við fólkið sem málið varðar. „Það er að segja, ef skólanum er alvara með að bjóða upp á nám fyrir öll.“

Inngilding í forgrunni nýrrar stefnu

Fréttastofa hafði samband við Kristínu Eysteinsdóttur, rektor LHÍ, sem hafði ekki enn séð færsluna en gat þó svarað fyrir ýmislegt og sagði inngildingu vera í forgrunni nýrrar stefnu. Undanfarið hafi staðið yfir samræming inntökuskilyrða í tengslum við ný viðmið opinberra háskóla.

„Það er nýbúið að breyta æðri viðmiðum um aðgangskröfur í opinbera háskóla. Við þurfum að standa undir þeim lögum. Þar er ramminn skýr en háskólarnir hafa ákveðinn sveigjanleika til þess að meta hverja umsókn fyrir sig,“ segir Kristín. 

Kristín Eysteinsdóttir er rektor Listaháskóla Íslands.Vísir/Vilhelm

Sú meginregla gildi að nemendur sem hefji nám í háskóla skuli hafa lokið stúdentsprófi eða staðist lokapróf frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi. Háskólum sé heimilt að taka inn nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla. Þó sé tryggt að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum erlendum háskólum á sambærilegu sviði.

Í lögum um háskóla sé heimilað að setja sérstök inntökuskilyrði fyrir þá sem hefja nám í háskóla. Háskólarnir hafi ákveðinn sveigjanleika til að meta einstök mál og allar umsóknir séu skoðaðar út frá því

Það geti meðal annars falið í sér undanþágur frá almennum inntökuskilyrðum og veitir það Listaháskólanum svigrúm til að taka inn nemendur sem hafi ekki lokið stúdentsprófi eða lokaprófi á þriðja hæfniþrepi. 

Skólinn einbeiti sér sérstaklega að fólki með þroskahömlun

Með herferðinni „Listnám fyrir öll“ segir Kristín að verið sé vísa í niðurfellingu skólagjalda sem breyti miklu fyrir jafnræði nemenda. Inngilding sé í forgrunni í leiðarljósum nýrrar stefnu og út frá því sé búið að skilgreina markmið og forgangsraða tímasettar aðgerðir.

„Í nýrri stefnu erum við að leggja mikla áherslu á inngildingu en stefnan er til fjögurra ára. Róm var ekki byggð á einni nóttu. Við erum að stíga mjög stór skref í vetur, við erum búin að ráða inn inngildingarfulltrúa og við erum með sérstaka fræðslu fyrir allar inntökunefndirnar sem velja nemendurna inn,“ segir Kristín.

„Nemendur með þroskahömlun geta svo sannarlega komist inn í Listaháskólann. Við höfum verið að vinna með deildum að því að það yrði farið í sértæk úrræði ef viðkomandi þarf á aðstoðarmanneskju eða stuðningi að halda.“

Varðandi námsframboð fyrir fólk með þroskahömlun segir Kristín að Listaháskólinn sé sérstaklega að einbeita sér að þeim hópi. 

„Við erum til að mynda í samstarfsverkefni með Háskólanum á Akureyri og Menntavísindasviði Háskóla Íslands um aukið námsframboð fyrir fólk með þroskahömlun, verkefnið hlaut styrk úr samstarfi háskóla,“ segir hún einnig. Ýmsar aðgerðir séu í bígerð og leitað hafi verið til Fjölmenntar og Þroskahjálpar í þeirri vinnu. 

„Til dæmis erum við að skipuleggja málþing með þáttöku nemenda með þroskahömlun í samstarfi við HA og Menntavísindavísindasvið HÍ. Það málþing verður haldið í Listaháskólanum,“ segir Kristín.

Umsóknir metnar á annan hátt en áður

„Eftir að þessum aðgangsviðmiðum var breytt þá er staðan núna þannig að umsókn sem hefði kannski ekki verið til greina fyrir ári síðan, af því að viðkomandi uppfyllti ekki þessar grunnkröfur sem eru gerðar til þess að umsókn sé tekin til skoðunar, er metin á allt annan hátt í hverju tilfelli fyrir sig í samræmi við viðmiðin,“ segir Kristín.

„Auðvitað eru alltaf ákveðnar aðgangskröfur inn í háskóla en það er samt sem áður verið að horfa í reynslu og þekkingu og ýmsa aðra þætti. Þannig ég myndi segja að við séum að stíga stór skref í átt að þessari inngildingu,“ segir hún.

Inngildingarfulltrúi sé samhliða því í samtali við hagsmunaaðila, jaðarhópa, starfsmenn, nemendur og stúdentaráð.

„Við erum líka að segja skóli fyrir öll því það er það sem við viljum standa fyrir og ætlum að standa fyrir. Orð eru til alls fyrst en við erum auðvitað í stanslausri vinnu við að ná alla leið. Samfélagið er á sífelldri hreyfingu og við erum að reyna að bregðast við því,“ segir hún.

Þá sé einnig yfirstandandi vinna við að gera heimasíðu skólans og hafa upplýsingar skýrar og aðgengilegar. Það sé viðbragð við ábendingum sem hafi borist þess efnis.

„Nemendur með þroskahömlun mega sækja um í Listaháskólann, allar umsóknir eru skoðaðar út frá þeim viðmiðum sem ég hef nefnt hér að ofan. Stúdentspróf er ekki krafa, ef búið er að afla sér annarrar menntunar sem er nægilegur undirbúningur fyrir námið og þá er það metið út frá hverju tilfelli,“ segir hún.

Binda vonir við Listaháskólann

Átak, félag fólks með þroskahömlun, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið bindur miklar vonir við að Listaháskólanum sé alvara með yfirlýsingar sínar um listnám fyrir öll. 

„Það er grundvallaratriði að tryggja aðgengi á alla vegu, bæði að upplýsingum (auðlesið mál og algild hönnun), húsnæði, félagslífi og kennsluháttum. Aðeins þannig geta nemendur, óháð tjáskiptaleið, fötlun, kyni, uppruna (eða öðru sem geirr manneskjuna einstaka) tekið þátt á jafnréttisgrundvelli.

Aðgengi að námi er meira en bara að komast inn í húsnæði – það snýst um að námsefni sé aðgengilegt, stuðningur sé til staðar sem mætir fjölbreyttum námsþörfum og að umhverfi sé viðhaldið þar sem virðing fyrir fjölbreytileika er í forgrunni. 

Að tryggja fólki með þroskahömlun aðgang að námi er ekki bara siðferðislega rétt, heldur leið til að auðga samfélagið með fjölbreyttum sjónarmiðum, nýsköpin og skapandi hugmyndum - einmitt það sem listnám á að gefa samfélaginu. 

Við hvetjum Listaháskóla Íslands til að vera leiðandi afl í þessum efnum og sýna fordæmi fyrir aðrar menntastofnanir með því að tryggja raunverulega þátttöku allra í námi og listum á Íslandi,“ segir í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×